Mótmæla áformum um vindmyllur á Brekkukamb í HvalfjarðarsveitÁ Brekkukambi í Hvalfirði eru uppi hugmyndir um að setja upp 8-12 vindmyllur – þar sem að hver mylla er 250 metra há. Brekkukamburinn sjálfur er 647 metra hár sem samsvarar hæstu tindum Akrafjalls.

Nýverið var settur upp undirskriftarlisti til þess að mótmæla þessum áætlunum. Formlegt ferli um að reisa myllurnar er hafið þar sem að Skipulagsstofnun auglýsti nýleg eftir athugasemdum við matsáætlun.

Í tilkynningu frá þeim sem standa að undirskriftarsöfnunni kemur fram að þeir óttist áhrifin af þessum framkvæmdum á náttúru, fuglalíf og íbúa. Þar m.t. á Skagamenn. Á það hefur verið bent að hver vindmylla gefi af sér 62-63 kg af örplastögnum á ári sem gerir þá allt að 750 kg af 12 myllum. Miðað við vindafar þá gætu þessar plastagnir borist í vatnsból á svæðinu og líka vatnsból Skagamanna.

Hér er umfjöllun Arnfinns Jónassonar sem hann birti á facebook síðu sinni, en Arnfinnur hefur verið í forsvari fyrir undirskriftasöfnun:

Smelltu hér til að taka þátt:


Það er ekkert hreint við vindorkuna nema vindurinn. Fólk étur hugsunarlaust upp mýtuna um að vindorkan sé umhverfisvænasti orkugjafinn. Hvað þýðir það? Til að beysla vindinn notum við vindmyllur. Við sjáum þær snúast, þær hafa þrjá spaða og eru yfirleitt hvítar til að undirstrika hreinleikann. Vindmyllurnar sjálfar eru eiturefnasprengja. Á Brekkukambi er áætlað að setja upp 8-12 vindmyllur og hver vindmylla gæti verið frá rúmlega 4 MW til rúmlega 6 MW.

Í seglum hverflanna (túrbína) í vindmyllum er notaður léttmálmurinn Neodymium sem framleiddur er að mestu í iðnaðarborginni Baotou í Innri-Mongólíu í Kína.

Samkvæmt MIT (Massachusetts Institute of Technology) er áætlað að í hverri 4 MW vindmyllu séu rúmlega 720 kg af Neodymium (1.080 kg í 6 MW vindmyllum). Við vinnslu á Neodymium losnar geislavirkur úrgangur. Þessi geislavirki úrgangur er meðal 7.000.000 tonna af eiturefnaúrgangi, sem árlega er dælt út í manngert, risastórt og sístækkandi „stöðuvatn“ við iðnaðarborgina Baotou sem er lítið annað en svört leðja. Eiturefni og þungmálmar smitast yfir í grunnvatnið þannig að hvorki menn, skepnur né plöntur þrífast þar, en Baotou er oft uppnefnd „helvíti á jörðu“. https://news.sky.com/…/clean-energys-dirty-secret-pond…


Samkvæmt IAGS (The Institute for the Analysis of Global Security) er áætlað að fyrir hvert tonn af unnum fágætum málmum er framleitt um eitt tonn af geislavirkum úrgangi. Með háværari kröfum um fleiri vindorkugarða hefur eftirspurnin eftir Neodymium rokið upp. Allur geislavirkur úrgangur sem verður til í heiminum hleðst upp. Það er ekki hægt að eyða honum heldur er hann geymdur á mjög misgóðum stöðum líkt og í „stöðuvatninu“ í Baotou.


Þegar vindmyllur eru hannaðar er gert ráð fyrir að þær endist í minnst 20 ár í erfiðu umhverfi eins og raka, hita, kulda, sandstormum og salti en í raun er meðallíftíminn nær því að vera 13-14 ár. Endurnýja þarf skrúfuna og blöðin á 10 ára fresti. Blöðin safnast upp og eru jörðuð eða eru send til landa í Afríku þar sem umhverfiskröfur eru í algeru lágmarki. Einn vindmylluspaði getur vegið 20 tonn og allt upp í 60 tonn stærstu spaðarnir. Það eru þrír vindmylluspaðar á hverri vindmyllu. Þrátt fyrir að unnið sé að þróun „grænstáls“ og endurvinnslu á spöðum þurfum við þó að horfast í augu við að fyrir árið 2050 munu safnast upp tugir milljóna tonna af gömlum vindmylluspöðum.

4,2 MW vindmylla er um 500 tonn að heildarþyngd (71-79% stál, 11-16% trefjagler, plast eða epoxy, 5-7% járn eða steypujárn, 1% kopar og 0-2% ál).

Til að búa til 1 tonn af stáli þarf u.þ.b. ½ tonn af kolum. 50 tonn í viðbót af kolum þarf til að framleiða sementið í undirstöðurnar. Þetta eru um 300 tonn af kolum per vindmyllu. Vindmylluspaðarnir eru framleiddir úr trefjagleri (ca 60%) sem er styrkt með epoxy (ca 40%) sem nánast útilokað er að endurvinna.. Epoxy er að einum þriðja hluta Bisphenol A (BPA) sem er plast. Á heimasíðu

Umhverfisstofnunar er útskýrt hvað BPA er og hvaða áhrif það getur haft á menn og dýr. Rannsóknir hafa sýnt fram á margvíslegan skaða af völdum BPA en niðurstöður eru mismunandi hvað varðar þann styrkleika sem leiðir til hættu. BPA líkir eftir estrógeni og truflar með því starfsemi í innkirtlum líkamans. Sýnt hefur verið fram á að það geti dregið úr eðlilegum þroska heilans og taugakerfis og einnig valdið ófrjósemi og þroskafrávikum.

Í skýrslu sem Norðmennirnir Asbjørn Solberg, Bård-Einar Rimereit og Jan Erik Weinbach gáfu út í júlí 2021 fara þeir yfir hvað vindmylla sem framleiðir 4,2 MW af rafmagni losar frá sér af eiturefnum, örplasti út í náttúruna. Skýrslan er byggð á gögnum sem háskólinn í Strathclyde í Skotlandi gaf út það sama ár. https://docs.wind-watch.org/Leading-Edge-erosion-and… Allar mælingar í rannsókninni miðast við ákveðinn vindstyrk og rigningar en það er tekið fram að meðal annars ísing leiði til enn meiri losunar á örplasti. Það er ekki vitað hve mikið af BPA losnar út í náttúruna en það þarf aðeins eitt kíló af BPA til að menga 10 milljarða lítra af vatni (10.000.000.000 lítrar). Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) mælist til þess að ekki sé meira en 0,1 mikrógramm af BPA í einum lítra af drykkjarvatni. Það þýðir 0,0000001 gramm í lítra.

4,2 MW vindmylla losar 62 kg af örplasti (trefjagler og epoxy) út í náttúruna skv skýrslu þremenninganna. Miðað við sömu forsendur gætu 12 slíkar vindmyllur (50,2 MW) á Brekkukambi því losað 744 kg af örplasti út í náttúruna. Á 10 árum eru þetta 7,44 tonn af örplasti. Örplastið eyðist ekki í náttúrunni heldur safnast upp í henni, í fólki og dýrum. Þetta örplast mun dreifa sér um stórt svæði og menga vatnsból og beitarlönd. Vindmylluiðnaðurinn hefur haldið því fram að það losni aðeins 140 grömm af örplasti frá hverri vindmyllu árlega.

Fyrir íbúa næst fyrirhuguðum vindmyllugarði á Brekkukambi snýst þetta mál um heilsu, búsetu, lífsafkomu og að ævistarf fólks sé ekki lagt í rúst á örfáum árum. Það er hætt við því að landbúnaðarafurðir þar sem bændur og afurðarstöðvar auglýsa með stolti hreinleika vörunnar, lambakjötið og mjólkina, verði óhæfar til manneldis. Verði þessi vindmyllugarður að veruleika er viðbúið að fleiri slíkir rísi í Hvalfjarðarsveit þegar menn sjá skjótfenginn gróða í þessu með hrikalegum afleiðingum fyrir alla.

Hvernig viljum við sjá framtíðina í Hvalfjarðarsveit? Tökum afstöðu með náttúrunni og heilsu komandi kynslóða. Ég sé ekkert sem mælir með vindmyllugarði á toppi Brekkukambs. Skrifum undir mótmæli við vindmyllugarði á toppi Brekkukambs.