Pistill: Um Guðlaugu og fleiraAðsend grein frá Brynhildi Björgu Jónsdóttur.

Í góða veðrinu þessa dagana er gaman að fara um bæinn og sjá öll fallegu listaverkin sem er verið að gera og gleðja svo sannarlega augun. Það er líka gaman að sjá lífið á tjaldstæðinu, við Vitann, Langasandinn og Guðlaugu.

Það á alltaf að tala um og þakka það sem vel er gert og verið er að gera en líka að sama skapi eðlilegt að tala um það sem betur mætti fara og það sem mögulega gæti orðið til hagsbóta fyrir bæinn okkar og okkur öll.

Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum umræðan um opnunartíma þeirra ferðamannastaða sem við getum státað okkur af hér í bænum og eru í hans eigu og erum og eigum að vera ánægð með að hafa.

Frá 1. sept breyttist þessi tími og við tók vetrartími. Hann lengdist í Vitanum sem er gott en styttist í Guðlaugu.

S.l. mánudag hitti ég við Guðlaugu þýsk hjón og mann frá Frakklandi sem fannst mjög miður að komast ekki í laugina. Þau höfðu komið sérstaklega hingað til þess. Í dag eru þýsku hjónin farin til síns heima og sá franski þurfti að halda áfram för.

Í gærmorgun, þriðjudag taldi ég uþb 25 bíla, hýsi og tjöld á tjaldstæðinu og er ég alveg viss um að einhverjir af þeim hafa hugsað sér að komist í Guðlaugu. Og í morgun var mætt stór rúta og þrír aðrir bílar á planið við Vitann um leið og búið var að opna. Og já, sem betur fer er búið að breyta opnunartímanum.

Ég er virkilega hugsi yfir þessu og vil trúa að það sé hægt að gera betur. Ég hef hvergi séð rökin fyrir því að opnunartíminn skuli vera akkúrat svona en það væri gaman.

Í nýrri bæjarstjórn er ungt fólk í bland við eldri reynslubolta sem ætti virkilega að taka til hendinni með marga hluti og þar á meðal þessa. Það er ekki nóg að auglýsa „það er stutt“ þegar allt er svo lokað þegar á staðinn er komið. Það er eiginlega bara frekar hallærislegt.

Það er búið að flagga Guðlauginni undanfarin ár sem einstakri. Ekki bara af okkur heimafólki heldur er búið að flytja um hana erindi á ferða- og hönnunarráðstefnum bæði hér á landi og erlendis. Og hennar er getið í ferðabæklingum og á síðum ferðaskrifstofa sem einstakri.

Ég veit ekki hver hinn rétti opnunartími ætti að vera og geri mér grein fyrir að það er ekki á allt kosið þar.

En fram eftir hausti og fyrri part vormánaða þarf virkilega að endurskoða þannig að opið væri alla daga.

Ég nefni hér sem hugmynd helgaropnun svipaða og er og alla virka daga td frá 16-20. Yfir háveturinn er kannski eðlilegra að að hafa tímann styttri.

Ég get ekki lokið þessum skrifum án þess að minnast á aðkomuna í Guðlaugu eins og hún hefur verið undanfarið. Sturturnar og niðurföllin hafa verið í ólagi og ýmist hefur ekkert vatn komið eða sírennsli sem hefur ekki komist í burtu út af stífluðum niðuföllum. Og líka verður að passa upp á þrifnað í klefunum sem stundum hefur verið ábótavant. Ef við ætlum að halda áfram að flagga þessum einstaka stað verður hann að vera í lagi.

Eftir umræðu síðustu daga ætla ég að trúa að þetta verði endurskoðað og það verður að gera strax. Og ekki bara fyrir ferðamenn heldur líka okkur íbúana. Þeir sem eru við stjórn í bænum verða að vera betur vakandi bæði um þetta en reyndar um svo margt annað sem skiptir bæinn og okkur íbúana svo miklu máli. Við færum þeim völd á fjögurra ára fresti og þau völd ættu að skipta þau miklu máli ekki bara varðandi opnunartíma Guðlaugar heldur líka í öllu hinu.

Í nýrri bæjarstjórn er ungt fólk í bland við eldri reynslubolta sem ætti virkilega að taka til hendinni með marga hluti og þar á meðal þessa. Það er ekki nóg að auglýsa „það er stutt“ þegar allt er svo lokað þegar á staðinn er komið. Það er eiginlega bara frekar hallærislegt.

Brynh. Björg Jónsdóttir.