Staða ÍA nánast vonlaus eftir jafntefli gegn Leikni – fall úr efstu deild blasir viðKarlalið ÍA á enn tölfræðilega möguleika á að halda sæti sínu í Bestu deild Íslandsmótsins 2022. En möguleikinn er mjög fjarlægur þar sem að markatala liðsins er miklu verri en FH-inga sem eru í þriðja neðsta sæti þegar tvær umferðir eru eftir.

ÍA sótti Leikni heim í dag þar sem að liðin skildu jöfn, 2-2.

Á sama tíma landaði FH mikilvægum sigri gegn Keflavík og setti ÍA og Leikni í erfiða stöðu fyrir tvær síðustu umferðirnar.

ÍA er í neðsta sæti neðri hluta Bestu deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir.

Tvö neðstu liðin falla.

FH er með sex stiga forskot á ÍA og Leiknir er fjórum stigum á eftir FH-ingum. ÍA mætir liði ÍBV um næstu helgi og FH í lokaumferðinni.

Staða Skagamanna er vonlítil þar sem að ÍA er með 29 mörk í mínus og FH-ingar eru með 6 mörk í mínus. Ef liðin verða jöfn að stigum gildir markamunur liðanna.

Frá því að Skagamenn lönduðu fyrsta Íslandsmeistaratitlinum árið 1951 hefur liðið aðeins fimm sinnum fallið úr efstu deild -og í öll skiptin hefur ÍA verið í neðsta sæti.

ÍA féll úr efstu deild í fyrsta sinn árið 1967 en liðið fagnaði Íslandsmeistaratitlinum fljótlega á ný eða árið 1970.

Árið 1990 féll ÍA liðið í annað sinn en aðeins tveimur árum síðar fagnaði liðið Íslandsmeistaratitlinum en ÍA varð Íslandsmeistari fimm sinnum í röð á árunum 1992-1996.

Árið 2008 féll ÍA úr efstu deild í þriðja sinn í sögu félagsins.

Árið 2013 féll ÍA úr efstu deild í fjórða sinn sinn í sögunni.

ÍA féll úr efstu deild árið 2017 í fimmta sinn í sögu félagsins.