„Landsbyggðarstígur“ umhverfis Akrafjall á umræðustigi hjá AkraneskaupstaðSædís Alexía Sigurmundsdóttir, fulltrúi Framsóknar og frjálsra í skipulags – og umhverfisráði Akraness, lagði fram hugmyndir um verkefnið „Landsbyggðarstígur“ á fundi ráðsins í lok september.

Í kynningu Sædísar kom fram að Framsókn og frjálsir hafi lagt áherslu á verkefnið í kosningunum 2022.

Flokkurinn óskar eftir því að skoðaðir verði möguleikar á skipulagi og uppbyggingu Landsbyggðastígs milli Akraness og Hvalfjarðarsveitar í samvinnu við nágrannasveitarfélagið okkar og Vegagerðina. Í bókun Sædísar kom eftirfarandi fram og samþykkti skipulags – og umhverfisráð tillöguna.

„Við teljum að slíkur stígur ætti að ná hringinn í kringum Akrafjall með góðri tengingu við Melahverfið og Grundartanga. Stígur af þessum toga eykur gæði og notkunarmöguleika í umhverfinu sem umlykur sveitarfélögin tvö. Stígurinn ætti að vera fyrir gangandi- og hjólandi vegfarendur ásamt reiðstíg. Áhersla á aukna útvistarmöguleika og bætt lífsgæði íbúanna er grunnforsenda að fólk vilja búa í okkar sveitarfélagi og landshluta og mun þessi framkvæmd styðja við slíka áherslu. Við teljum að farsælasta byrjunin sé að fela sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að opna á formlegar viðræður við Hvalfjarðarsveit og Vegagerðina um málefnið.“