Knattspyrnufélag ÍA fékk KPMG til ráðgjafar um framtíðar stefnu félagsins



„Markmiðið með þessu verkefni er að búa til metnaðarfulla stefnu sem ÍA mun vinna eftir á komandi árum. Það er hlutverk okkar í stjórn félagsins að búa til og skapa forsendur þar sem starfsfólk, iðkendur og leikmenn þroskast og þróast við bestu mögulega aðstæður. Vinna KPMG hjálpar okkur hjálpar okkur að forgangsraða þeim verkefnum sem ráðast þarf í til að ná að uppfylla það hlutverk okkar,“ segir Eggert Herbertsson formaður KFÍA en félagið samdi nýverið við KPMG um ráðgjöf um að móta metnaðarfulla stefnu félagsins til framtíðar.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að í samfélagi líkt og á Akranesi er óhætt að segja að knattspyrna gegni afar mikilvægu, og á stundum, líklega vanmetnu hlutverki er varðar forvarnir og aðra samfélagslega ábyrgð.

„Starfsemi Knattspyrnufélags ÍA snertir líf meirihluta Akurnesinga á einn eða annan hátt og er ábyrgur rekstur og metnaðarfullt starf því lykilforsenda. Vinnan við gerð nýrrar heildstæðrar stefnu hefur nú staðið yfir í nokkra mánuði og grundvallast hún af því að eiga virkt og gott samtal við sem flesta hagaðila Knattspyrnufélags ÍA; starfsfólk, stuðningsfólk, styrktaraðila, iðkendur, foreldra og aðra aðstandendur. Kjarni vinnunnar gengur út á það að móta metnaðarfulla stefnu sem félagið mun vinna eftir á komandi árum þannig að allir sem að því koma gangi í takt. Eitt af markmiðum þessa verkefnis er að dreifa álagi á starfsfólk og búa því betra starfsumhverfi. Þannig næst að skapa hvetjandi umhverfi fyrir iðkendur og aðra hagaðila félagsins.“

Steinþór Pálsson hjá KPMG segir að fyrirtækið hafi unnið slík verkefni fyrir önnur félög á Íslandi.

„Við hjá KPMG kynntum verkefnið, sem við höfum unnið fyrir önnur félög við góðan orðstír, fyrst fyrir stjórn Knattspyrnufélags ÍA í desember 2019 og því má segja að það hafi átt sér langan aðdraganda og samtölin verið mörg. Við hlökkum mikið til að vinna þetta verkefni fyrir jafn sögufrægt og sigursælt félag og ÍA,“ segir Steinþór.