[adrotate group=“5″]
Leikmenn ÍA náðu að landa fimmta sigri tímabilsins í Bestu deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla í gær með 3-2 sigri gegn ÍBV.
ÍA lyfti sér þar með af botni deildarinnar en þrátt fyrir sigurinn er ÍA enn í fallsæti og FH-ingar geta sent ÍA niður með formlegum hætti í dag með því að ná í stig eða sigur gegn Fram.
Felix Örn Friðriksson kom ÍBV yfir strax á 4. mínútu. Staðan var 1-0 fyrir Eyjamenn í hálfleiks. Útlitið versnaði enn frekar fyrir Skagamenn þegar Breki Ómarsson kom ÍBV í 2-0 strax á 3. mínútu síðari hálfleiks.
Viktor Jónsson minnkaði munin fyrir ÍA á 72. mínútu, tveimur mínútum síðar jafnaði Ármann Ingi Finnbogason metin fyrir ÍA með fyrsta marki sínu í meistaraflokki. Sannarlega góð afmælisgjöf til Finnboga Jónssonar, föður Ármanns, sem átti afmæli í gær.
Varnarmaðurinn Hlynur Sævar Jónsson skoraði sigurmark ÍA á lokamínútu leiksins.
ÍA leikur gegn FH á útivelli í lokaumferðinni. ÍA er með 22 stig en FH er með 25 stig. Markatala FH er miklu betri en hjá ÍA og aðeins stórsigur gegn FH í lokaumferðinni gæti tryggt ÍA áframhaldandi veru í efstu deild.
[adrotate group=“1″] |
[adrotate group=“2″] |
[adrotate group=“3″] |
[adrotate group=“4″] |