ÍA riftir samningum við þrjá erlenda leikmenn – miklar breytingar á leikmannahópnum



Miklar breytingar verða á leikmannahóp karlaliðs ÍA á næstu leiktíð þegar liðið leikur í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins.

ÍA endaði í 11. og næst neðsta sæti Bestu deildarinnar en liðið var með 25 stig líkt og FH en Leiknir var í neðsta sæti með 21 stig.

Stjórn Knattspyrnufélags ÍA hefur virkjað heimild til þess að rifta samningum við þrjá erlenda leikmenn sem voru samningsbundnir fram til ársins 2023. Þeir eru Skotinn Alexander Davey, Daninn Christian Köhler og Kaj Leo i Bartalstov frá Færeyjum eru því á förum frá ÍA. Dönsku leikmennirnir Kristian Lindberg og Tobias Stagaard voru á lánssamningi hjá ÍA og eru einnig á förum líkt og Hollendingurinn Wout Droste.

Í dag var greint frá því að markahæsti leikmaður ÍA á tímabilinu, Eyþór Aron Wöhler, sé genginn í raðir Íslandsmeistaraliðs Breiðabliks í Kópavogi.

Í frétt fotbolti.net sem birtist nýverið kom fram að Arnór Smárason muni leika með ÍA á næstu leiktíð – en hann fór 15 ára gamall í atvinnumennsku eftir að hafa leikið upp yngri flokka ÍA. Arnór hefur leikið með liði Vals undanfarin ár.