Betur fór en á horfðist þegar byggingakrani, sem verið er að nota við framkvæmdir við nýtt íþróttahús við Jaðarsbakka, féll á Akraneshöllina.
Á sama tíma voru yngstu iðkendur hjá Knattspyrnufélagi Akraness við æfingar.
Nemendur í 1. og 2. bekk voru að ljúka við æfingu og nemendur í 5.og 6. bekk voru að hefja æfingu.
Miklar drunur og hávaði fylgdu þessu óhappi og opnaðist stórt gat á þak Akraneshallarinnar.
Akraneshöllinni hefur verið lokað á meðan aðstæður eru skoðaðar.
Í tilkynningu frá Knattspyrnufélagi Akraness kemur fram að líklega verði ekki hægt að æfa í knattspyrnuhúsinu næstu dagana.
Eins og sjá má á myndunum mun taka töluverðan tíma að lagfæra þakið á Akraneshöllinni.