Miðbæjarsamtökin Akratorg áttu góðan fund með skipulags – og umhverfisráði Akraness

Miðbæjarsamtökin Akratorg áttu góðan fund með skipulags – og umhverfisráði Akraneskaupstaðar í gær – þar sem að rætt var um ýmis mál sem brunnið hafa á samtökunum undanfarnar vikur og mánuði. 

Í tilkynningu frá Miðbæjarsamtökunum kemur fram að samtalið við ráðið hafi verið gott – og starfsmenn skipulagssviðs bæjarins tóku einnig þátt í umræðunum. 

Frá vinstri: Guðm. Ingþór Guðjónsson formaður skipulags- og umhverfisráðs, Anna Guðrún Albrecht (Akratorg), Bjarnheiður Hallsdóttir (Akratorg), Valgarður Lyngdal Jónsson varaformaður ráðsins, Sædís Alexía Sigmundsdóttir nefndarmaður í ráðinu og Ólafur Páll Gunnarsson formaður Akratorgs.    

„Við áttum gott samtal við ráðið og starfsmenn skipulagssviðs bæjarins um ýmsa hluti sem hafa brunnið á okkur í Miðbæjarsamtökunum. Við ræddum hvernig blása má auknu lífi í miðbæinn, um jólamarkaðinn, framtíð gamla Landsbankahússins og gamla leikfimihússins við Vesturgötu. Um gömul hús og ný, ráðhús, verslunarhúsnæði, íbúðarhúsnæði, skóla, bílaumferð, skrúðgarða og allt mögulegt. Við þökkum kærlega fyrir fundarboðið og gott og uppbyggilegt spjall og vonum að fundirnir verði fleiri á nýju ári. Styrkjum og eflum gamla miðbæinn á Akranesi fyrir alla bæjarbúa,“ segir Ólafur Páll Gunnarsson formaður Akratorgs.