UMFÍ úthlutaði 1,4 milljónum til verkefna á Akranesi

Stjórn Fræðslu- og verkefnasjóðs Ungmennafélags Íslands úthlutaði á dögunum 14,2 milljónum króna til 105 verkefna.

Þetta er hæsta upphæð sem úthlutað hefur verið úr sjóðnum í einu.. Þetta er í annað sinn á árinu sem úthlutað er úr þessum sjóði en fyrr á þessu ári var tæplega 11 milljónum úthlutað á 58 verkefni

Íþróttahreyfingin á Akranesi hefur fengið styrki fyrir ýmis verkefni úr þessum sjóði á þessu ári.

  • Knattspyrnufélag ÍA fékk 150.000 kr. fyrir verkefnið „Stefnumótun Knattspyrnufélags ÍA“.
  • Íþróttabandalag Akranes, ÍA, fékk 400.000 kr. fyrir verkefnið „Börn af erlendum uppruna“ og einnig 600.000 kr. fyrir verkefnið „Þjálfun barna“.
  • ÍA fékk einnig 120.000 kr. styrk vegna uppfærslu á heimasíðu bandalagsins.
  • Golfklúbburinn Leynir fékk 125.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Andleg heilsa og styrkur barna og unglinga í keppnum.“
  • Einnig var veittur styrkur að upphæð 300.000 kr. fyrir uppbyggingu á rafíþróttafélagi á Akranesi. 

Alls fengu því aðildarfélög á Akranesi úthlutað tæplega 1,4 milljónum kr.

Markmið Fræðslu- og verkefnasjóðs er að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar í samræmi við stefnu UMFÍ, m.a. með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun í félagsmálum og félagsstarfi.

Rétt til umsóknar úr sjóðnum eiga sambandsaðilar UMFÍ, aðildarfélög sem eru virk í starfi og deildir innan þeirra. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ rétt á að sækja um styrk úr sjóðunum.

Sjóðsstjórn úthlutar styrkjum úr Fræðslu- og verkefnasjóði tvisvar á ári og var þetta síðari úthlutun ársins. Fyrri úthlutun ársins var í vor og hljóðaði upp á 10,8 milljónir króna. Sjóðurinn hefur því styrkt verkefni á vegum félaga innan UMFÍ fyrir um 25 milljónir króna á þessu ári.

Við úthlutanir úr sjóðnum á þessu ári hefur verið áhersla á átaksverkefni til þess að snúa við brottfalli barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19, verkefna sem beinast að því að ná til fólks sem staðið hefur utan við skipulagt íþróttastarf og að fjölga þátttakendum á Unglingalandsmóti UMFÍ.