Bæjarráð Akraness samþykkti á fundi sínum þann 16. desember s.l. að leggja það til við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um þátttöku Akraneskaupstaðar í samræmdum móttökum flóttafólks.
Aðeins á eftir að samþykkja þetta mál með formlegum hætti í bæjarstjórn Akraness.
Á fundi ráðsins var fulltrúi frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu viðstaddur í gegnum fjarfundarbúnað. Hann fór yfir efnisinnihald samnings ríkisins við sveitarfélögin vegna samræmdrar móttöku flóttafólks.
Aldrei hafa jafnmargir einstaklingar og nú verið á flótta vegna stríðsátaka og ofsókna í heiminum frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk vorið 1945. Fyrirsjáanlegt er að umsækjendum um alþjóðlega vernd á Íslandi muni fjölga verulega ekki síst frá Úkraínu.
Í samræmdum aðgerðum flóttafólks er lögð áhersla á að tryggja aðgengi flóttafólks í íslenskt samfélag og stuðla að því að samfélagið komi til móts við þarfir þess. Huga þarf að húsnæðismálum, skólagöngu, framfærslu, heilbrigðis og velferðarþjónustu og áfallaaðstoð, frístundum og félagslegri samveru svo eitthvað sé nefnt.
Fulltrúum úr velferðar- og mannréttindaráðs og skóla- og frístundaráðs var boðið að taka þátt í fundinum ásamt öllum bæjarfulltrúum.
Eftirtaldir bæjarfulltrúar og ráðsmenn sátu fundinn: Kristinn Hallur Sveinsson, Einar Brandsson, Guðmundur Ingþór Guðjónsson, Anna Sólveig Smáradóttir, Magni Grétarsson og Aníta Eir Einarsdóttir. Einnig sátu Sveinborg Kristjánsdóttir sviðsstjóri/félagsmálastjóri og Hrefna Rún Ákadóttir félagsráðgjafi fundinn.