Bæjarráð ræddi um framtíðaruppbyggingu Árnahúss við Sólmundarhöfða

Árnahús við Sólmundarhöfða var enn og aftur umfjöllunarefni á fundi bæjarráðs þann 16. desember s.l.

Á fundinum var samþykkt að fela skipulags- og umhverfissviðs að skoða mögulegar útfærslur á endurbótum á húsinu með tilliti til stækkunarmöguleika hjúkrunar- og dvalarheimilisins á Höfða. Í fundargerðinni kemur fram að leitað skuli álits stjórnar Höfða í þessu sambandi.

Bæjarráð Akraness fjallaði fyrr á þessu ári um Árnahús sem er í eigu Akraneskaupstaðar og á þeim fundi setti bæjarráð fram bókun að mikilvægt væri að mannvirkin verði endurbyggð.

Frumkostnaðaráætlun vegna endurbóta hefur verið lögð fram. Á fundi ráðsins frá því í byrjun september kemur eftirfarandi fram. 

 

Bæjarráð telur mikilvægt að mannvirkin verði endurbyggð en huga þarf að ýmsum þáttum í því sambandi svo sem nýtingu svæðisins, framtíðarmöguleikum á stækkun Höfða o.fl. Einnig er mögulegt að endurbygginng mannvirkjanna fari fram í áföngum og að unnt sé að sækja styrki af ýmsum toga, hjá Minjastofnun, Húsfriðunarsjóð, SSV o. fl. Bæjarráð vísar málinu til umræðu hjá bæjarfulltrúum vegna fjárhagsaáætlunargerðar vegna ársins 2023 og þriggja ára tímabils 2014 til og með 2026.