Í bréfi sem ÍA og Knattspyrnufélag ÍA (KFÍA) sendu á bæjarráð þann 30. nóvember koma fram áhugaverðar tillögur um breytingar á Jaðarsbakkasvæðinu.
ÍA og KFÍA telja að nauðsynlegt sé að fara í verulegar endurbætur á knattspyrnuvellinum við Jaðarsbakka. Öflugur hópur sjálfboðaliða gerði völlinn á miðjum fjórða áratug síðustu aldar – og er ljóst að undirlag vallarins er langt á eftir þeim gæðastöðlum sem notaðir eru í dag við uppbyggingu á slíkum íþróttamannvirkjum.
Í bréfinu eru viðraðar hugmyndir og lausnir til skemmri og lengri tíma – ef ráðist yrði í risavaxnar breytingar á legu Akranesvallar.
Þar er sagt frá þeirri hugmynd að snúa Akranesvelli í 90 gráður og þar með myndi völlurinn liggja samhliða vesturhlið Akraneshallar.
aðalvöllur myndi vera á 12 þúsund fermetra svæði og með tilfærslunni væri hægt að nýta 1,5 hektara af landsvæði til uppbyggingar og umhverfisbóta. Í bréfinu kemur fram að náttúrugras, hybridgras og gervigras séu allt valkostir sem komi til greina í vali á undirlagi á nýjum grasvelli. Hybrid gras er blanda af náttúrugrasi og gervigrasi – en slík lausn varð fyrir valinu á Kaplakrikavelli hjá FH,
Ljóst er að með breytingum á aðalvelli verður ekki hægt að leika á honum í 1-2 ár. Það leiðir af sér að gera þyrfti gervigrasvöll austan Akraneshallar – með bráðabirgðaaðstöðu fyrir áhorfendur á meðan framkvæmdum stendur. Sá völlur myndi í framhaldinu nýtast sem æfinga – og keppnisvöllur fyrir leiki KFÍA til lengri tíma.
Ekki hafa verið lagðar fram hugmyndir um hvað verður gert við áhorfendastúkuna við Akranesvöll í þessu breytingarferli – eða hvort ný áhorfendastúka verði gerð á vesturhlið Akraneshallar.
Bréf ÍA og KFÍA má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.
Myndirnar hér fyrir neðan eru samsettar af skagafrettir.is og eru aðeins byggðar á þeim gögnum sem koma fram í bréfi ÍA.