Starfsmenn Skagans 3X gerðu sér glaðan dag á Bóndadeginum .
Auk bóndadagsins fögnuðu starfsmenn einum áfanga í auknu samstarfi þeirra íslensku fyrirtækja sem eru í eigu þýska fyrirtækisins BAADER. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Á dögunum tók fyrirtækið Skaginn 3X ehf. yfir allan rekstur Þorgeirs & Ellerts ehf. og Skagans ehf. á Akranesi auk 3X Technology ehf. á Ísafirði. Öll eru fyrirtækin að fullu í eigu Baader í Þýskalandi sem einnig á og rekur Baader Ísland ehf. í Kópavogi. Sigsteinn Grétarsson var á haustdögum ráðinn forstjóri allra þessara fyrirtækja.
„Með kaupum okkar á þessum fyrirtækjum á sínum tíma og samþættingu rekstrar þeirra nú erum við að staðfesta þann ásetning okkar að byggja upp með íslensku hugviti og reynslu sterkt tæknifyrirtæki sem getur mætt ítrustu kröfum sem gerðar eru til vinnslu sjávarafurða. Með þessari uppbyggingu á Íslandi styrkjum við til muna vöruframboð BAADER á alþjóðavísu og gerir okkar ennþá betur í stakk búin að mæta þeirri miklu samkeppni sem ríkir í matvælaiðnaðinum“ segir Robert Focke framkvæmdastjóri BAADER Fish.
Sigsteinn Grétarsson segir samþættingu fyrirtækjanna eðlilegt skref í þá átt að móta sterkt BAADER fyrirtæki á Íslandi sem byggi á þeirri þekkingu sem þau hvert um sig hafi byggt upp á löngum tíma. „Við höfum á undanförnum mánuðum verið smám saman að ná vopnum okkar að nýju eftir talsverðan samdrátt. Verkefnastaðan er góð og við erum bjartsýn á framtíðina. Það er ánægjulegt að við höfum á undanförnum vikum verið að fjölga starfsfólki á starfstöðvum okkar m.a. á Ísafirði og Akranesi.“
Til merkis um þessa auknu samvinnu BAADER fyrirtækjanna á Íslandi og móðurfélagsins í Þýskalandi hafa á undanförnum dögum merki gömlu fyrirtækjanna smám saman verið að hverfa og byggingar þær sem nú hýsa reksturinn bera nú öll merki móðurfélagsins BAADER.
„Með þessari breytingu erum við ekki að kast á glæ sögunni, þekkingunni og reynslunni heldur undirstrika þá ætlun okkar að nýta okkur nálægðina við íslenskan sjávarútveg á hverjum stað fyrir sig og finna þessum kostum nýjan og árangursríkan farveg. Þrátt fyrir að merki móðurfélagsins verði nú sýnilegt í okkar störfum er samþættingin rétt að byrja. Við munum því áfram þekkjast best í nærumhverfinu sem Skaginn 3X “ segir Sigsteinn að lokum.