Samstaða Skagasamfélagsins sýndi sig í verki í söfnun fyrir Helgu Ingibjörgu

„Þetta á eftir að koma sér mjög vel og gefur mér mikinn styrk til þess að klára þetta verkefni. Ég á ævilangan vin í honum Gísla og ykkur öllum fyrir þetta allt saman. Ég get ekki fundið réttu orðin núna,“ sagði Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir í dag við skagafrettir.is þegar greint var frá niðurstöðu í söfnun sem Gísli setti af stað í vikunni.  

Helga Ingibjörg er um þessar mundir í lyfjameðferð vegna krabbameins. Hún hefur talað opinskátt um verkefnið og er í framvarðarsveit í auglýsingaherferð Krafts sem er í gangi um þessar mundir.

Samstaða Skagasamfélagsins sýndi sig í verki í þessari söfnun.

Alls söfnuðust rúmlega 2,5 milljónir kr.  
*Uppfært kl. 12:30 – 9. febrúar 2023.


Eins og áður segir átti Gísli , frumkvæðið að söfnunni. Sigrún Ríkharðsdóttir og Ísólfur Haraldsson aðstoðuðu Gísla við kynningu á söfnunni. Gísli sagði að framlag Sigrúnar hefði skipt öllu máli og greinilegt að mikill vilji var í samfélaginu að hún myndi láta skerða hár sitt með eftirminnilegum hætti.  

Helga rakaði hárið af Gísla af mikilli fagmennsku en rakarinn hafði sjálfur sett það markmið að láta raka af sér hárið þegar 200 þúsund væru komnar í hús í söfnunni. 

Sigrún sett ný viðmið þegar hún bauð fram hár sitt þegar 1 milljón kr. væri náð – og sá Carmen Llorens, samstarfsfélagi Gísla, um það viðamikla verkefni. 

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Þetta eru allt saman einstakir karakterar sem hafa staðið að þessu, Gísli, Ísólfur og Sigrún. Ég er ótrúlega þakklát fyrir þetta. Samt sem áður er ég lítil í mér en samt svo stór þegar ég finna að allt samfélagið stendur saman í þessu með mér,“ bætti Helga Ingibjörg við.   

Söfnunin gekk vonum framar og eins og fram kemur í ræðu Gísla í myndbandinu hér fyrir neðan er enn hægt að taka þátt – 

Þeir sem vilja taka þátt geta lagt inn á reikning sem er skráður á Gísla Jens Guðmundsson, hárskera:

Reikningsnúmer: 0186 – 05 – 070010

Kennitala: 150971 – 5519

Eigandi reiknings er Gísli J Guðmundsson.

Skagafréttir voru með beina útsendingu frá viðburðinum – sjá hér fyrir neðan.