Frábær sigur Skagamanna gegn toppliðinu í körfunni

Karlalið ÍA gerði sér lítið fyrir og sigraði topplið Hamars í gær í 1. deild Íslandsmótsins, 97-91. 

Leikurinn fór fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Með sigrinum færðist lið ÍA nær næstu liðum í töflunni en ÍA er samt sem áður í næst neðsta sæti deildarinnar. 

Sigur ÍA kom án efa flestum á óvart þar sem að Hvergerðingar úr Hamri voru í efsta sæti deildarinnar með 34 stig og í harðri baráttu við Álftanes um efsta sætið sem gefur beina leið í efstu deild. 

Liðin í sætum 2-5 keppa í úrslitakeppni um annað laust sæti í efstu deild á næsta tímabili. 

ÍA á enn tölfræðilega möguleika á að komast í fimmta sætið. 

Hinn ungi og efnilegi Þórður Freyr Jónsson átti sinn besta leik í vetur og skoraði alls 27 stig, þar af 6 þriggja stiga körfur, úr aðeins 9 tilraunum. Jalen Dupree skoraði 23 stig og tók 11 fráköst og Lucien Christofis skoraði 19 stig og gaf 7 stoðsendingar. 

Næstu leikur ÍA er gegn liði Selfoss á útivelli þann 24. febrúar en liðið á eftir sex leiki í deildarkeppninni. Næsti heimaleikur er gegn liði Ármanns þann 3. mars en alls eru þrír heimaleikir eftir hjá ÍA. 

Myndirnar hér fyrir neðan eru úr leik ÍA og Sindra sem fram fór nýverið.