Feðgarnir Jón og Stefán fengu byr undir báða vængi á stofnfundi hollvinafélagsins „Á Sigurslóð“

Í gær fór fram stofnfundur hollvinafélags sem mun styðja við bakið á verkefninu Á Sigurslóð sem feðgarnir Jón Gunnlaugsson og Stefán Jónsson hafa unnið að allt frá árinu 2014.

Á þriðja tug mættu á fundinn sem fram fór í Breið Nýsköpunarsetri og þar kynntu feðgarnir verkefnið.

Um er að ræða vefsíðuna Á Sigurslóð þar sem að haldið verður utan um sögu Knattspyrnufélags ÍA allt frá þeim tíma þegar saga knattspyrnunnar hófst á Skipaskaga.

Á undanförnum árum hefur fésbókarsíða með sama nafni verið nýtt til að koma ýmsu efni framfæri – nánar hér

Tilgangur hollvinafélagsins er að safna og varðveita og gera aðgengilegar allar upplýsingar, heimildir og gögn um sögu knattspyrnunnar á Akranesi – jafnt kvenna – og karlaliða. Félagið er opið fyrir alla þá sem hafa áhuga á þessu verkefni. Stjórn félagsins skipa þeir Jón Gunnlaugsson, Gísli Gíslason og Örn Gunnarsson.

Upphafið má rekja til ársins 1972 þegar Helgi Daníelsson hvatti Jón Gunnlaugsson til þess að safna saman upplýsingum og tölfræði um Akranesliðið í knattspyrnu.

Jón sagði í ræðu sinni að hann hafi safnað upplýsingum um Akranesliðið í knattspyrnu í rúmlega hálfa öld – og markmiðið hafi verið að halda utan um tölfræðina sem tengdist meistaraflokki félagsins. Leikir, úrslit leikja, leikmannahópar, þjálfarar, skoruðu mörk og ýmis annar fróðleikur er grunnurinn að efninu sem verður á vefnum „Á Sigurslóð“. Jón hefur lagt mikla vinnu í að safna upplýsingum frá fyrstu árum Knattspyrnufélagsins – og nýtti hann hverja stund til þess að sinna þessu áhugamáli sínu samhliða því að leika knattspyrnu með ÍA um margra ára skeið.

„Markmið verkefnsins er að gera sem mest af upplýsingum um knattspyrnuna á Akranesi og birta þær með aðgengilegum hætti á opinni heimasíðu. Við viljum ná til almennings á öllum aldri. Á síðunni verða ýmsir flokkar upplýsinga, umfjöllun um einstaklinga og liðs hvers tíma og árangur þeirra. Með stofnun félags um þetta verkefni er markmiðið að fleiri komi að þessari vinnu með ýmsum hætti og styðji við bakið á okkur feðgum – og félaginu. Að mínu mati hefur knattspyrnan á Akranesi átt stóran þátt í því að skrifa góðu sögu frá Akranesi og bætt ímynd og orðspor bæjarfélagsins. Með því að gera söguna aðgengilega opnum við glugga fyrir alla þá sem vilja kynna sér þann bæjarbrag sem knattspyrnan hefur skapað á Akranesi í gegnum tíðina. Við vonum að sjálfsögðu að Knattspyrnufélag ÍA haldi áfram um ókomna tíð að skrifa glæsilega kafla í þessa sögu,“ sagði Jón en Á Sigurslóð er tileinkuð minningu Helga Dan.

„Helgi Dan var óþreytandi allt til æviloka að taka saman efni tengt knattspyrnunni á Akranesi samhliða því að vera góður myndasmiður. Hann setti sannarlega svip sinn á íslenska knattspyrnu með ýmsum hætti,“ bætti Jón við en hann hefur áhyggjur af þverrandi áhuga íþróttahreyfingarinnar að halda utan um söguna. „Að mínu mati er ekki mikill áhugi innan íþróttahreyfingarinnar á Akranesi að vernda söguna með því að skrá hana og halda utan um það sem er að gerast á hverjum tíma. Lengi vel var þessu vel sinnt en mun minna á seinni árum,“ sagði Jón m.a. á stofnfundinum.

Stefán Jónsson fór í stuttu máli um sögu heimasíðunnar Á Sigurslóð sem fór í loftið árið 2014 og var um margra ára skeið hluti af gagnasafni á heimasíðu Knattspyrnufélags ÍA.

„Áformin árið 2014 voru metnaðarfull og mikil vinna lögð í gagnagrunninn. Nú þegar eru til í safninu um 2600 blaðagreinar allt frá árinu 1946, mörg hundruð ljósmyndir, og nýverið hófum við að færa efni af rúmlega 600 VHS spólum yfir í stafrænt form – sem verður aðgengilegt á vefnum. Framsetning efnis á vefnum verður mjög aðgengilegt – og góðar tengingar á milli efnis, mynda, blaðaúrklippa við einstaka leikmenn eða einstaka leiki. Markmiðið er að bæta við efni um þjálfara ÍA í gegnum tíðina og að hver þeirra fái sitt svæði, gamlar leikskrár verða vistaðar á vefnum, gamlar bækur og umfjöllun um landsliðsmenn – og konur frá ÍA í gegnum tíðina. Ljósmyndir skipa stórt hlutverk í gagnagrunni síðunnar. Myndirnar höfum við fengið frá einkaaðilum og opinberum ljósmyndasöfnum. Guðmundur Bjarki Halldórsson hefur einnig ánafnað safn sitt í gegnum tíðina í þetta verkefni, og upptökur frá ÍATV verða einnig aðgengilegar á vefnum okkar,“ sagði Stefán m.a. á stofnfundinum í gær.

Hörður Helgason, fyrrum þjálfari og leikmaður ÍA, fór yfir sögulegt keppnistímabil meistaraflokks ÍA árið 1984 þegar karlaliðið varði bæði Íslands – og bikarmeistaratitlana frá árinu 1983. Afrek sem ekkert félagslið hefur endurtekið frá þeim tíma en Hörður var þjálfari liðsins á þessum árum.