„Björgum með list“ lokið með góðum árangri

Listfélag Akraness stóð fyrir viðburði á Vetrardögum þar sem að hið nýstofnaða félag hélt sýningu í samvinnu við Björgunarfélag Akraness. 

Í tilkynningu frá Listfélaginu kemur fram að viðburðurinn hafi gengið vel og söfnuðust rúmlega 700 þúsund kr. til handa Björgunarfélagi Akraness.

Á myndinni er Smári Jónsson formaður Listfélags Akraness að afhenta Ásgeiri Kristinssyni formanni Björgunarfélags Akraness söfnunarféð. 

„Okkur hjá Listfélagi Akraness er efst í huga þakklæti til allra þeirra sem komu að og tóku þátt í okkar fyrsta opinbera verkefni Björgum með list á Vetrardögum á Akranesi. Björgum með list var styrktar sýning til handa og í samvinnu við Björgunarfélag Akraness.

Einnig viljum við þakka þeim fjölmörgu sem sóttu viðburðinn kærlega fyrir komuna og ekki síst öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til styrktar Björgunarfélaginu.

Gestum sýningarinnar bauðst að styrkja Björgunarfélagið með því að bjóða í listaverk á hljóðlátu uppboði, kaupa ljóðabækur og gefa frjáls framlög vegna framkomu sviðslistafólks félagsins.

Björgunarfélag Akraness setti af stað fjáröflunarverkefni í tengslum við þetta verkefni þar sem félagið er að safna fé fyrir nýjum harðbotna bát sem kemur til með að efla tækjakost félagsins verulega.

Það er gaman að segja frá því að alls safnaðist 730,501 króna sem er mjög góð byrjun fyrir þeirra söfnun.

Björgunarfélaginu þökkum við fyrir gott samstarf, það var gaman að sjá hvað snyrtilegt húsnæði þeirra og tækjabúnaður skapaði skemmtilega umgjörð fyrir viðburðinn, til að mynda var vagn snjóbíls notað sem svið fyrir sviðslistarfólkið.

Við hjá Listfélagi Akraness þökkum kærlega fyrir okkur og hlökkum til að halda áfram að starfa sem félag til að efla menningarlíf á Akranesi og nágrenni.

Stjórn Listfélags Akraness.