Microsoft hefur gert samning við Running Tide um kolefnisbindingu og hafrannsóknir, en samningurinn snýr m.a. að starfsemi félagsins á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Samningurinn snýr að kolefnisbindingu og hafrannsóknum, en samningurinn snýr m.a. að starfsemi Running Tide á Íslandi. Þetta er fyrsti samningurinn sem Microsoft gerir við fyrirtæki í sjávartengdri kolefnisbindingu.
Running Tide er bandarískt loftslagsfyrirtæki og er með aðstöðu í nýsköpunarsetrinu Breið. Þar fara fram rannsóknir og framleiðslu á þörungum til kolefnisbindingar í hafi.
Starfsemi Running Tide á Breiðinni er í formi rannsóknar- og þróunarstarfs á sviði líftækni en fyrirtækið hyggst nýta þá þekkingu sem það hefur aflað sér í hátækniþörungarækt og byggja upp starfsemi sína á því sviði á Íslandi.
Í samningnum felst að Microsoft fyrirframgreiðir kolefniseiningar sem verða til við rannsóknir og kolefnishreinsun á vegum Running Tide. Rannsóknirnar, sem fara að hluta fram á alþjóðlegum hafsvæðum nærri Íslandi, snúa að því hvernig nota megi náttúrulegar aðferðir sjávar til að binda kolefni varanlega.
Microsoft stefnir á að ná kolefnishlutleysi árið 2030. Sem hluti af þeirri vegferð hefur Microsoft ákveðið að fjármagna uppbyggingu aðferða til varanlegrar bindingar á kolefni.
„Það er mjög mikil viðurkenning fyrir Running Tide að ná samningi við aðila eins og Microsoft. Þetta er fyrirtæki sem allir þekkja en færri vita að í kolefnisbindingarheiminum er Microsoft almennt talinn einn kröfuharðasti kúnninn,” segir Kristinn Árni L. Hróbjartsson, framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi.
„Það tók langan tíma að ná þessum samningi. Við fórum í 18 mánaða ferli með vísinda- og tæknifólki Microsoft þar sem þau rýndu aðferðafræði, vísindalegan grunn og köfuðu í alla okkar vinnu hingað til.”
Samkvæmt samkomulaginu við Microsoft mun Running Tide framkvæma rannsóknir á virkni sjávartengdra aðferða til varanlegrar kolefnisbindingar og áhrifum þeirra á sjávarbotninn. Running Tide segir mikilvægt að þessar rannsóknir liggi fyrir áður en aðferðirnar eru skalaðar upp verulega.
Running Tide gerir út frá Akranesi
„Varanleg kolefnisbinding er ný grein og því gerir Microsoft miklar kröfur um að verkefnin skili raunverulegri bindingu, byggi á bestu mögulegu vísindum og að neikvæðar hliðarverkanir séu engar eða lágmarkaðar. Microsoft hefur byggt upp þekkingu innanhúss og efnt til samstarfs við fremsta vísindafólk heims á þessu sviði til að tryggja að fyrirtækið fjárfesti einungis í raunhæfum og trúverðugum leiðum, en reglulega vaknar umræða um áreiðanleika kolefnisbindingar.“
Rannsóknunum verður að mestu leyti stýrt af starfsfólki Running Tide á Íslandi en fyrirtækið er einnig í samstarfi við sérfræðinga hér á landi og erlendis, þar með talið sumum af fremstu rannsóknarstofnunum heims.