Knattspyrnufélag ÍA hefur samið við sænskan varnarmann sem mun leika með karlaliðinu út leiktíðina.
Pontus Lindgren heitir leikmaðurinn en hann er 22 ára gamall og er samningsbundinn KR.
ÍA og KR hafa komist að samkomulagi um að hann verði lánaður til ÍA.
Lindgren mun leika í hjarta varnarinnar. Honum er ætlað að fylla það skarð sem Alex Davey skilur eftir sig – en skoski varnarmaðurinn sleit hásin í bikarleik um s.l. helgi.
Áður en Lindgren kom til KR var hann hjá sænska liðinu Norrköping en þar hafa margir leikmenn úr röðum ÍA komið við sögu – og Arnór Sigurðsson leikur með félaginu um þessar mundir.
ÍA mætir liði Keflavíkur í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ í kvöld en leikurinn fer fram í Reykjaneshöllinni – og verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á RÚV2.
Samkvæmt frétt á heimasíðu KFÍA mun Lindgren vera í leikmannahópnum gegn Keflavík en hann er komin með leikheimild með ÍA.