Sviðslistaverðlaunin Gríman voru afhent í 21. sinn við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu s.l. þriðjudag og fór viðburðurinn fram í Borgarleikhúsinu.
Skagamaðurinn Hallgrímur Ólafsson fékk verðlaun fyrir bestan leik í aðalhlutverki í Íslandsklukkunni. Alls voru veitt verðlaun í 19 flokkum á Grímunni og er listinn hér fyrir neðan:
Hallgrímur eða „Halli Melló“ var kjörinn bæjarlistamaður Akraness árið 2022.
Hann er fæddur og uppalinn á Akranesi, hann gekk í Grundaskóla á æskuárunum og fór þaðan í FVA en var rekinn þaðan fyrir einstaka hæfileika í að eyða tíma í skipulagningu viðburða nemendafélagsins á skólatíma.
Þrátt fyrir brösótt gengi í FVA lauk hann prófi í leiklist frá listaháskóla Íslands 2007 og vann síðan með leikfélagi Akureyrar 2007-2008 og í Borgarleikhúsinu 2008-2014.
Hallgrímur hefur síðan starfað með Þjóðleikhúsinu frá árinu 2014.
Á leikferlinum hefur hann leikið í hátt í 40 leiksýningum frá útskrift en einnig í ótal sjónvarpsþáttum og bíómyndum og fengið tilnefningu til Eddunnar fyrir leik sinn í Gullregni.
Sem tónlistarmaður hefur Hallgrímur komið fram undir listamannsnafninu „Halli Melló“ og honum til heiðurs hefur Leiklistaklúbbur fjölbrautaskólans fengið nafnið „Melló“ þar sem Hallgrímur hefur margoft sinnt leikstjórn m.a. á sýningunum Draumnum, Grease, Gauragangi og fleiri sýningum.
Hallgrímur er stoltur Skagamaður og hefur alltaf verið tilbúinn að koma í sinn gamla heimabæ til að sinna ýmsum verkefnum s.s að vera viðburðastjóri Írskra daga og að koma fram við hin ýmsu tækifæri.
- Sýning ársins: Ellen B.
- Leikrit ársins: Síðustu dagar Sæunnar eftir Matthías Tryggva Haraldsson
- Leikstjóri ársins: Benedict Andrews – Ellen B.
- Leikari í aðalhlutverki: Hallgrímur Ólafsson – Íslandsklukkan
- Leikari í aukahlutverki: Benedikt Erlingsson – Ellen B.
- Leikkona í aðalhlutverki: Nína Dögg Filippusdóttir – Ex
- Leikkona í aukahlutverki: Íris Tanja Flygenring – Samdrættir
- Leikmynd: Mirek Kaczmarek – Prinsessuleikarnir
- Búningar: Alexía Rós Gylfadóttir og Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir – Geigengeist
- Lýsing: Kjartan Þórisson – Geigengeist
- Tónlist: Gígja Jónsdóttir og Pétur Eggertsson – Geigengeist
- Hljóðmynd: Unnsteinn Manuel Stefánsson – Íslandsklukkan
- Söngvari: Björgvin Franz Gíslason – Chicago
- Dansari: Þyri Huld Árnadóttir – Hringrás
- Danshöfundur: Þyri Huld Árnadóttir – Hringrás
Dans- og sviðshreyfingar: Lee Proud – Chicago - Barnasýning ársins: Draumaþjófurinn
- Sproti ársins: Grasrótarstarf óperulistamanna
- Heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands 2023: Arnar Jónsson