Framleiðendur nýrra heimildarþátta óska eftir myndum og myndböndum stuðningsfólki ÍA 

Karlalið ÍA í knattspyrnu er til umfjöllunar í nýjum heimildarþáttum sem eru í vinnslu.

Þættirnir fjalla um ÍA liðið sem kom upp úr næst efstu deild árið 1991 og varð í kjölfarið Íslandsmeistari karla fimm ár í röð, 1992-1996. Það er afrek sem er einstakt í íslenskri knattspyrnusögu. 

Framleiðandi þáttanna er fyrrum landsliðsmarkvörður Íslands, Hannes Þór Halldórsson, í samstarfi við RÚV.  Snævar Sölvason er leikstjóri og handritið skrifar Kristján Jónsson íþróttablaðamaður Morgunblaðsins.

Liðið var að miklu leyti skipað heimamönnum sem langflestir unnu fulla vinnu með íþróttaiðkun sinni, en Akranes hefur í gegnum áratugina verið kallað knattspyrnubær sökum þess hve mjög knattspyrnan hefur litað bæjarbraginn. Í þáttunum er rætt við þjálfara, leikmenn, andstæðinga, stjórnarmenn, stuðningsmenn og fjölmiðlamenn.

Þeir sem standa á bak við verkefnið hafa fengið dygga aðstoð frá Haraldi Sturlaugssyni, Stefáni Jónssyni við að safna saman myndbandsefni og ljósmyndum frá þessum tíma. 

Þeir Hannes, Snævar og Kristján óska eftir aðstoð frá bæjarbúum og ástríðufullum stuðningsmönnum. 

„Það gætu leynst gullmolar sem gaman væri að fá aðgengi að.  Kannski eru til ljósmyndir frá bæjarbúum frá leikjum, í teiti fyrir leik þar sem stuðningsmenn eru með andlitsmálningu og í gula búningnum. Myndir frá fögnuði á Akratorgi þegar titlunum var fagnað, frá ferðum í Akraborginni á leiðinni í leikinn gegn Feyenoord á Laugardalsvelli, frá útileikjum í Evrópukeppninni, úrslitaleiknum gegn KR á Akranesvelli árið 1996 eða hvað sem er tengist árunum 1991-1996,“ segir Snævar við skagafrettir.is.  

Tölvupóst varðandi upplýsingar um efni má senda á:  [email protected]