Náttúruöflin áttu sviðið á sólríkum degi í Hvalfirði

Hér á þessari mynd má sjá pramma frá Running Tide sem var dreginn inn í Hvalfjörðinn í dag. Eldgos á Reykjanesskaga er í aðalhlutverki á myndinni og segir allt sem segja þarf um þau öfl sem búa í náttúrunni. 

Bandaríska loftslagsfyrirtækið Running Tide hóf starfsemi í Nýsköpunarsetrinu Breið á Akranesi fyrir rétt rúmlega tveimur árum.  Rannsóknir og framleiðsla á þörungum til kolefnisbindingar í hafi er rauði þráðurinn hjá líftæknifyrirtækinu. Forsvarsmenn fyrirtækisins telja að Ísland hafi alla burði til að verða miðstöð kolefnisbindingar í heiminum. Pramminn er hluti af verkefni Running Tide þar sem að stórþörungar eru nýttir til að binda kolefni í stórum stíl. 

Eldgosið sem hófst á Reykjanesskaga í gær losar gríðarlegt magn af koldí­oxíði (CO2) út í and­rúms­loftið. Árlega losar mann­kynið um það bil 37 millj­arða tonna af koldí­oxíði (CO2) út í and­rúms­loftið með því að brenna kol­um, olíu og gasi. 
 

Running Tide er nýstárlegt fyrirtæki sem þróar og nýtir tækni og aðferðir sem örva náttúruleg ferli sjávarins í að grípa, binda, og geyma kolefni til langs tíma. Hluti lausnarinnar sem Running Tide vinnur að byggist á að rækta stórþörunga sem binda kolefni í stórum stíl á sérhönnuðum baujum á hafi úti. Þörungarnir og baujurnar vinna einnig gegn súrnun sjávar. Lausnir fyrirtækisins á sviði kolefnisbindingar bæta þannig lífríki hafsins og skila ávinningnum til sjávarplássa og vistkerfa heimsins. Þróun og framleiðsla á þörungunum sjálfum er staðsett á Akranesi.