Glæsilegur 6-1 sigur hjá kvennaliði ÍA og spennandi lokakafli framundan

Kvennalið ÍA landaði góðum 6-1 sigri í gær í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu gegn ÍH á útivelli. Leikurinn fór fram í Skessunni í Hafnarfirði. 

Samira Suleman kom ÍA yfir á 25. mínútu og hin þaulreynda Unnur Ýr Haraldsdóttir bætti við öðru marki fyrir ÍA á 31. Hildur Katrín Snorradóttir minnkaði muninn fyrir ÍH með marki á 37. mínútu. Erna Björt Elíasdóttir kom ÍA í 3-1 með marki á 45. mínútu. Staðan í hálfleik var 3-1 fyrir ÍA. 

Suleman kom ÍA í 4-1 á 61. mínútu með öðru marki sínu í leiknum. Erla Karitas Jóhannesdóttir skoraði tvö síðustu mörk leiksins fyrir ÍA á 76. og 79. mínútu. Lokatölur 6-1. 

Með sigrinum komst ÍA í annað sætið í deildinni. ÍA er með 32 stig eftir 16 leiki en ÍR er í efsta sæti með 36 stig. Fjórir leikir eru eftir af mótinu en tvö efstu liðin fara upp í 1. deild.