Karlalið ÍA tyllti sér á topp 1. deildar Íslandsmótsins í dag með 3-2 sigri gegn Þór Akureyri.
Leikurinn fór fram á Þórsvellinum á Akureyri og er ÍA með þriggja stiga forskot á Aftureldingu sem er í öðru sæti deildarinnar.
Sigurinn var gríðarlega mikilvægur þar sem að efsta lið deildarinnar tryggir sér sæti í Bestu deild Íslandsmótsins á næsta ári.
Liðin í sætum 2-5 leika í úrslitakeppni um eitt laust sæti til viðbótar í efstu deild Íslandsmótsins. Afturelding hefur tapað þremur leikjum og gert eitt jafntefli í síðustu fimm leikjum liðsins.
Það eru tvær umferðir eftir af Íslandsmótinu í næst efstu deild – og leikur ÍA gegn Njarðvík á útivelli 9. september og Grótta kemur í heimsókn í lokaumferðinni sem fram fer laugardaginn 16. september.
Viktor Jónsson kom ÍA yfir strax á 9. mínútu og var þetta 18. mark hans í 20 leikjum en Viktor er markahæsti leikmaður deildarinnar. Fyrirliðinn Arnór Smárason kom ÍA í 2-0 á 16. mínútu. Bjarni Guðjón Brynjólfsson minnkaði muninn fyrir Þór á 24. mínútu og staðan var 2-1 fyrir ÍA í hálfleik.
Breki Þór Hermansson, sem kom inná sem varamaður um miðjan síðari hálfleik skoraði þriðja mark ÍA á 86. mínútu. Nikola Kristinn Stojanovic skoraði annað mark Þórs rétt fyrir leikslok – lokatölur 3-2 fyrir ÍA.