Karlalið ÍA er einu skrefi frá sæti í efstu deild á ný

Karlalið ÍA í landaði mikilvægum 4-2 sigri á útivelli í dag í næst síðustu umferð næst efstu deildar á Íslandsmótinu í knattspyrnu. 

Njarðvík var mótherji ÍA í dag en liðið í er harðri fallbaráttu. 

Með sigrinum er ÍA í kjörstöðu að tryggja sér sæti í Bestu deild karla á næsta tímabili. ÍA er með þriggja stiga forskot á Aftureldingu þegar einn leikur er eftir af deildarkeppninni. Með sigri gegn Gróttu á heimavelli í lokaumferðinn getur ÍA tryggt sér sæti í efstu deild á ný eftir árs fjarveru. 

Tvö lið fara upp í Bestu deildina úr Lengjudeildinni. Liðin í sætum 2-5 leika í úrslitakeppni um eitt laust sæti í efstu deild að ári. 

Árni Salvar Heimisson skoraði fyrsta mark ÍA strax á 7. mínútu og varnarmaðurinn Hlynur Sævar Jónsson skoraði enn eitt markið fyrir ÍA á 13. mínútu – staðan 2-0. 

Rafael Alexandre Romao Victor minnkaði munnn fyrir heimamenn á 40. mínútu. Staðan í hálfleik 2-1 fyrir ÍA. 

Breki Þór Hermannsson stimplaði sig inn í leikinn fyrir ÍA með marki á 46. mínútu en hann kom inná sem varamaður í hálfleik. Steinar Þorsteinsson bætti við fjórða marki ÍA 81. mínútu. Oliver James Kelart Torres skoraði annað mark Njarðvíkinga þegar skammt var eftir leiknum.