Skagamönnum spáð ágætu gengi í 1. deild karla í körfunni

Karlalið ÍA í körfuknattleik hefur keppni á Íslandsmótinu n.k. föstudag þegar Hrunamenn koma í heimsókn á Akranes. Leikið verður í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka. 

Lið ÍA er í næst efstu deild Íslandsmótsins og er liðinu spáð 7. sæti af alls 12 liðum. Leikin verður tvöföld umferð á Íslandsmótinu í 1. deild karla. Liðið sem endar í efsta sæti eftir deildarkeppnina fer beint upp í Subway deildina, efstu deild, en liðin í sætum 2-9 leika til úrslita um eitt laust sæti til viðbótar í efstu deild. 

Deildin verður áhugaverð þar sem að lið KR leikur í næst efstu deild en KR er eitt sigursælasta félag allra tíma í körfubolta í karlaflokki. KR er spáð efsta sæti og ÍR, sem féll einnig úr úrvalsdeildinni s.l. vor, er spáð öðru sæti.   

Lið ÍA hefur fengið góðan liðsstyrk í sumar. Skagamennirnir Aron Elvar Dagsson og Styrmir Jónasson snúa til baka á heimaslóðir – og er endurkoma þeirra mikil lyftistöng fyrir félagið. Jónas Steinarsson er kominn frá ÍR og Srdan Stojanovic frá Álftanesi. 

Lucien Christofis leikur á ný með ÍA en hann var einn af lykilmönnum ÍA í fyrra – og hinn bráðefnilegi Þórður Freyr Jónsson hefur einnig samið á ný við ÍA. 

Nebosja Knezevic er þjálfari liðsins – en hann er að hefja sitt annað tímabil með liðið.  

Komnir:
Jónas Steinarsson frá ÍR
Aron Elvar Dagsson frá Breiðablik
Styrmir Jónasson frá Selfossi
Srdan Stojanovic frá Álftanesi

Farnir:
Gabriel Adersteg til ÍR

Endursamið:
Lucien Christofis
Þórður Freyr Jónsson

Spá fyrirliða, þjálfara og formanna félaga 1. deild karla er hér fyrir neðan.