Bæjarskrifstofa Akraness hefur frá haustdögum 2021 verið til húsa á Dalbraut 4 – og deilir þar nýlegu húsnæði sem byggt var undir starfssemi Félags eldri borgara á Akranesi – FEBAN.
Akraneskaupstaður fyrirhugar nú að flytja hluta af starfsemi bæjarskrifstofu í næsta nágrenni – eða við Dalbraut 1.
Bæjarráð Akraness fjallaði nýverið um drög að leigusamningi um húsnæði við Dalbraut 1 þar sem að Íslandsbanki er með útibú sitt í dag.
Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að hluti af starfsemi bæjarskrifstofu yrði flutt í þetta húsnæði ef samningar nást. Fjallað verður um málið á ný á fundi bæjarráðs þann 26. október.
Bæjarskrifstofan var til margra ára við Stillholt 16-18 þar til að ákveðið var að flytja úr því húsnæði vegna loftgæðavandamála.
Útibú Íslandsbanka miun ekki fara langt – en Íslandsbanki stefnir á að opna þann 3. nóvember n.k. í rýminu þar sem áður var apótek, á milli Omnis verslun og Subway.