Lilja Guðmundsdóttir sópran, Bjarni Thor Kristinsson bassi og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari koma fram á fyrstu tónleikum haustsins hjá Kalman listafélagi fimmtudaginn 2. nóvember nk. kl. 20. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Yfirskrift tónleikanna er ,,Ástir og drykkja – söngvar og aríur um ástir, örlög og bús“ en þar flytja þau söngdagskrá sem samanstendur af íslenskum sönglögum og aríum úr óperum sem fjalla annað hvort um drykkju eða ást – nema hvort tveggja sé!
Sönglögin eru kokteill af þekktum slögurum og óþekktari lögum með smávegis brjóstbirtu af rótsterkum aríum meistara óperubókmenntanna.
Miðaverð er kr. 3.500 og kr. 3.000 fyrir Kalmansvini.
Miðasala er við innganginn.
Kaffi og konfekt í hléi.
Kalman listafélag er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.
Lilja Guðmundsdóttir er alin upp á Kópaskeri og hóf ung tónlistarnám. Hún útskrifaðist með hæstu einkunn á mastersprófi frá MUK tónlistarháskóla Vínarborgar 2015. Hún hefur komið fram sem einsöngvari með Salon Islandus, The Festival Orchestra Wien og Sinfóníuhljómsveit Íslands og sungið innan lands og utan í óperum eftir Bizet, Britten, Mozart, Puccini, Rossini og Stravinsky auk sem hún hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum í Austurríki, Búlgaríu, Finnlandi, Frakklandi og Þýskalandi auk Íslands.
Bjarni Thor Kristinsson hefur sungið fjölda óperuhlutverka um allan heim, m.a. í Beijing, Berlín, Chicago, Dresden, Feneyjum, Flórens,Hamborg, Köln, Lissabon, München, Napólí, Palermo, París, Róm, Tókíó, Verona og Vín, þar á meðal ellefu hlutverk í níu óperum Wagners. Bjarni er einnig ljóðasöngvari og leikstjóri. Söng hans má heyra á mörgum geisladiskum og í sjónvarpsþættinum Átta raddir.
Helga Bryndís Magnúsdóttir lauk einleikara-og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 þar sem aðalkennari hennar var Jónas Ingimundarson. Hún stundaði síðan framhaldsnám við Konservatoríið í Vínarborg hjá Leonid Brumberg og Sibeliusarakademíuna í Helsinki, hjá Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila. Hún hefur leikið fjölmörg einleiksprógrömm, m.a. í Salnum í Kópavogi, á Listahátíð í Reykjavík og um allt land. Hún hefur auk þess leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, píanókonserta eftir Ravel, Poulenc, Brahms, Gershwin og Bach. Helga Bryndís lék einleik í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum í spurningaþættinum Kontrapunkti. Hún hefur leikið mikinn fjölda tónleika með fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins og hljóðritað marga geisladiska í samstarfi við aðra. Hún er meðlimur í Caput hópnum og hefur leikið með honum víða erlendis og hér heimavið auk þess að hafa leikið inn á geisladiska með þeim. Hún hefur einnig gert upptökur fyrir sjónvarp og útvarp, bæði ein og með öðrum. Hún starfar sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólana í Kópavogi og Reykjanesbæ.