Keilufélag Akraness heldur áfram að minna á sig á mótum – þrátt fyrir að aðstaða félagsins sé lokuð í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Félagið fær nú takmarkaða æfingatíma í eina keilusal landsins, Keiluhöllinni í Egilshöll.
Sunnudaginn 19. nóvember var mikið um að vera hjá félaginu og margir þeirra voru í um 10 klukkustundir samfellt á svæðinu. Dagurinn hófst með æfingu yngri leikmanna félagsins. ÍA lék deildarleik um miðjan dag og um kvöldið fór fram Pepsimótið – sem félagsmenn nýta sem tækifæri til æfinga.
Í deildarleiknum lék ÍA gegn Lærlingum úr Reykjavík. Þar hafði ÍA betur 12-2.
Matthías Leó Sigurðsson landaði öllum þeim stigum sem voru í boði í hans leikjum, Ísak Birkir Sævarsson og Magnús Sigurjón Guðmundsson léku með Matthíasi í þessum leikjum.
Matthías sigraði í Stjörnuflokki þar sem hann setti Íslandsmet í flokki 15-16 ára. Hann fékk 979 pinna í fjórum leikjum en hæst er hægt að fá 1200 pinna samtals í fjórum leikjum. Meðaltalið var því 244 pinnar. Matthías Leó er nemandi á afreksbraut við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.
Matthías Leó með Íslandsmet á góðum keppnisdegi Keilufélags Akraness
By
skagafrettir