Drífa fékk Minningarskjöld Súsönnu frá Badmintonfélagi Akraness

Badmintonkonan Drífa Harðardóttir fékk nýverið Minningarskjöld Súsönnu sem Badmintonfélag Akraness veitir.

Skjöldurinn er veittur í minningu Súsönnu Steinþórsdóttur sem starfaði mikið fyrir félagið sem foreldri. Skjöldurinn er veittur til einstaklings sem hjálpar, hvetur og styður með gleði og vináttu.

Í tilkynningu frá Badmintonfélagi Akraness kemur eftirfarandi fram: 

„Drífa hefur alla tíð spilað fyrir ÍA og er mikilvæg fyrirmynd fyrir okkar iðkendur. Drífa hefur góða nærveru og er dugleg að hvetja iðkendur félagsins og gefa þeim góð ráð. Drífa er sigursæl á keppnisvellinum og sigursæl utan vallar því aðrir félagsmenn líta á hana sem vinkonu og fyrirmynd.“

Brynja Kolbrún Pétursdóttir afhenti Drífu viðurkenninguna.

Drífa vann tvenn gullverðlaun á Heimsmeistaramóti öldunga fyrr á þessu ári. Hún varði þar með titlana frá því á HM öldunga árið 2021 í tvíliða – og tvenndarleik.