Í dag 2.desember var við annar glugginn í „Skaginn syngur inn jólin“ opnaður. Þetta er í fjórða sinn sem þetta verkefni er haldið.
Í ár er dagatalið aðventudagatal þar sem að gluggar verða opnaðir alla laugardaga og sunnudaga fram að jólum.
Fjölhæfur listamaður lætur ljós sitt skína í þessu atriði – en þar er á ferðinni Hallgrímur Ólafsson leikari.
Um mitt þetta ár fékk Skagamaðurinn sviðslistaverðlaunin Gríman fyrir bestan leik í aðalhlutverki í Íslandsklukkunni. Árið 2022 var hann útnefndur sem bæjarlistamaður Akraness.
Í þessu atriði syngur Hallgrímur lagið Dansaður vindur sem er eftir Peter Grönvall og Nanne Grönvall. Textann samdi Kristján Hreinson en Eivør Pálsdóttir frumflutti lagið á sínum tíma.
Hallgrímur er fæddur og uppalinn á Akranesi, hann gekk í Grundaskóla á æskuárunum og fór þaðan í FVA en var rekinn þaðan fyrir einstaka hæfileika í að eyða tíma í skipulagningu viðburða nemendafélagsins á skólatíma.
Þrátt fyrir brösótt gengi í FVA lauk hann prófi í leiklist frá listaháskóla Íslands 2007 og vann síðan með leikfélagi Akureyrar 2007-2008 og í Borgarleikhúsinu 2008-2014.
Hallgrímur hefur síðan starfað með Þjóðleikhúsinu frá árinu 2014.
Á leikferlinum hefur hann leikið í hátt í 40 leiksýningum frá útskrift en einnig í ótal sjónvarpsþáttum og bíómyndum og fengið tilnefningu til Eddunnar fyrir leik sinn í Gullregni.
Sem tónlistarmaður hefur Hallgrímur komið fram undir listamannsnafninu Halli Melló og honum til heiðurs hefur Leiklistaklúbbur fjölbrautaskólans fengið nafnið „Melló“ þar sem Hallgrímur hefur margoft sinnt leikstjórn m.a. á sýningunum Draumnum, Grease, Gauragangi og fleiri sýningum.
Hallgrímur er stoltur Skagamaður og hefur alltaf verið tilbúinn að koma í sinn gamla heimabæ til að sinna ýmsum verkefnum s.s að vera viðburðastjóri Írskra daga og að koma fram við hin ýmsu tækifæri.