Sjónvarpsþættirnir „Skaginn“ fengu fjölmiðlaviðurkenningu KSÍ

Sjónvarpsþættirnir „Skaginn“ sem sýndir voru á RÚV fyrr í vetur vöktu mikla athygli – þar sem að kastljósinu var beint að karlaliði ÍA á árunum 1992-1996. 

Knattspyrnusamband Íslands veitti í dag þeim sem stóðu að þáttunum Fjölmiðlaviðurkenningu KSÍ fyrir árið 2023. 

Snævar Sölvason, Kristján Jónsson og Hannes Þór Halldórsson eru þeir sem lögðu af stað með þetta verkefni.

Þættirnir eru heimildarþættir um lið ÍA sem vann einstakt afrek í íslenskri knattspyrnusögu þegar það varð Íslandsmeistari karla fimm ár í röð á árunum 1992-1996.

Snævar Sölvason var leikstjóri þáttanna og handritið skrifaði Kristján Jónsson. Hannes Þór Halldórsson var framleiðandi þáttanna.

Í þáttunum, sem voru fimm talsins, einn fyrir hvert ár, var rætt við þjálfara, leikmenn, andstæðinga, stjórnarmenn, stuðningsfólk og fjölmiðlafólk um liðið og þennan tíma og þar er varpað nýju og áður óþekktu ljósi á þetta ótrúlega afrek.

Á myndinni eru Snævar Sölvason og Kristján Jónsson ásamt Ómari Smárasyni frá KSÍ.