Guðjón Þórðarson fékk gullmerki Knattspyrnufélags ÍA

Guðjón Þórðarson, fyrrum leikmaður og þjálfari karlaliðs ÍA í knattspyrnu fékk nýverið gullmerki Knattspyrnufélags ÍA.

Í tilkynningu frá KFÍA segir að Guðjón fái þessa viðurkenningu fyrir frábært framlag hans til knattspyrnunnar á Akranesi. 

Guðjón lék með ÍA á árunum 1972-1986. Hann er lék alls 392 leiki fyrir ÍA og þar af 213 í efstu deild – sem er leikjamet sem hann deilir með Pálma Haraldssyni.

Guðjón varð Íslandsmeistari fimm sinnum sem leikmaður ÍA  1974, 1975, 1977,1983 og 1984. Hann varð einnig bikarmeistari sem leikmaður fimm sinnum, 1978, 1982, 1983, 1984 og 1986. Á ferlinum lék Guðjón í vörn ÍA en hann skoraði alls 16 mörk fyrir félagið. 

Guðjón hóf þjálfaraferilinn hjá mfl. karla hjá ÍA árið 1987. Hann tók við liðinu á ný árið 1991 þegar liðið var í næst efstu deild. Liðið fór upp um deild og varð Íslandsmeistari árið eftir. 

Hann þjálfaði ÍA á árunum 1991-1993, 1996 og 2007-2008. Hann varð Íslandsmeistari sem þjálfari liðsins í þrígang – og bikarmeistaratitlarnir eru tveir sem þjálfari.