Hinrik Örn Bjarnason hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Eðalfangs ehf.
Um er að ræða nýtt stöðugildi innan samstæðu Eðalfangs, en Hinrik var áður framkvæmdastjóri N1 ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu en Eðalfang er móðurfélag matvælafyrirtækjanna Norðanfisks ehf. á Akranesi og Eðalfisks ehf. í Borgarnesi.
Bæði fyrirtækin framleiða hágæða sjávarfang, hvort á sínu sviði. Eðalfiskur sérhæfir sig í vinnslu á laxaafurðum til útflutnings og Norðafiskur er einn stærsti framleiðandi og dreifingaraðili alhliða sjávarfangs á innanlandsmarkaði.
Eðalfang er einnig stærsti hluthafi 101 Seafood ehf., sem er leiðandi í innflutningi á eftirsóttum skelfiski á borð við humar, krabba og hörpudisk.
Hinrik Örn útskrifaðist 1998 sem viðskiptafræðingur með cand.oecon gráðu frá Háskóla Íslands. Hinrik hefur m.a. áður starfað sem sölustjóri hjá SÍF hf., sem forstöðumaður útflutningssviðs Samskipa, yfirmaður erlends sjávarútvegsteymis Landsbankans og sem framkvæmdarstjóri Eimskips í Þýskalandi. Á árunum 2013-2023 starfaði Hinrik hjá N1 ehf., í
fyrstu sem framkvæmdarstjóri fyrirtækjasviðs og síðar sem framkvæmdarstjóri félagsins. Á meðan hann gegndi því starfi lauk hann AMP (Advanced Management Program) við IESE
háskólann í Barcelona.
„Ég er sannfærður um að reynsla og þekking Hinriks muni reynast Eðalfangi vel. Hinrik þekkir vel til sjávarútvegs, en hann hefur verið viðriðinn iðnaðinn með einum eða öðrum hætti allt frá barnsaldri. Hinrik býr yfir mikilli reynslu af stjórnunarstörfum jafnt innanlands
sem erlendis. Þessi ráðning markar enn ein tímamótin í rekstri samstæðu Eðalfangs, sem ætlar sér stóra hluti á næstu árum,“ segir Andri Gunnarsson stjórnarformaður Eðalfangs.
„Ég er fullur tilhlökkunar yfir því að fá tækifæri til að leiða samstæðu Eðalfangs í þeirri spennandi vegferð sem framundan er. Ég sé fram á mikil tækifæri í aukinni verðmætasköpun með fullvinnslu afurða hér á landi og er sannfærður um að fyrirtækið hafi allt sem þarf til þess að verða öflugur þátttakandi í næstu bylgju íslensks sjávarútvegs,“ segir Hinrik Örn.