Sundfólk úr röðum ÍA náði frábærum árangri á Íslands – og unglingameistaramótinu sem fram fór í Laugardalslaug um s.l. helgi. Keppt var í 50 metra laug og voru alls 183 keppendur frá 16 félögum. ÍA var með 10 keppendur, og uppskeran var góð. Íslandsmeistaratitill, fjögur silfur og 15 bronsverðlaun.
Einar Margeir Ágústsson, Íþróttamaður Akraness 2023, landaði Íslandsmeistaratitli í 50 m skriðsundi. Einar vann einnig silfur í 50 m bringusundi og 50 m flugsundi.
Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir vann silfur í 50 m flugsundi og brons í 100 m skriðsundi.
Guðbjarni Sigþórsson náði bronsi í 50m skriðsundi bæði í fullorðins og unglingaflokki. Í 200 m skriðsundi varð hann í þriðja sæti í unglingaflokki.
Í 100m skriðsundi setti hann nýtt Akranesmet í unglingaflokki þegar hann synti á 53,90, gamla metið átti Kristján Magnússon á 53,99 frá því í fyrra.
Sunna Arnfinnsdóttir vann til fjölda verðlauna í bæði fullorðins og unglingaflokki. Hún vann silfur í 200m flugsundi og brons í 100m og 200m baksundi ásamt 400m fjórsundi.
Í unglingaflokki vann hún silfur í 200 m fjórsundi og brons í; 200 m flugsundi, 400 m fjórsundi, 100 m og 200 m baksundi
Kajus Jatautas synti sitt fyrsta úrslitasund á Íslandsmeistaramóti þegar hann komst í úrslit í 50 m og 100m baksundi.
Ingibjörg Svava synti góð sund um helgina og það sérstaklega í 50 m baksundi og 50 m skriðsundi þar sem hún bætti sig verulega.
Sunna Dís Skarphéðinsdóttir stóð sig vel og bætti sig í tveim af þrem sundum og þriðja sundið synti hún á nákvæmlega sama tíma og hún átti.
Karen Anna Orlita gerði mjög gott á sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti og bæti sig í öllum þremur greinum.
.
Viktoria Emilia átti góða helgi í skriðsundi með flottum bætingum, sérstaklega í 50m og 100m skriðsundi.
Í boðsundum vann ÍA til tvennra bronsverðlauna hjá strákunum, 4x100m skriðsund og 4x100m fjórsundi.
Liðið skipuðu þeir Kajus Jatautas, Guðbjarni Sigþórsson, Einar Margeir Ágústsson og Kristján Magnússon.
Stelpurnar voru í fjórða sæti í 4×100 skriðsundi og 6. sæti í 4×100 fjórsundi og það voru þær Viktoria Emilia Orlita, Ingibjörg Svava Magnúsardóttir, Sunna Arnfinnsdóttir og Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir