Gyða Björk tekur við formennsku hjá ÍA af Hrönn

Íþróttabandalag Akraness, ÍA, hélt árlegt þing bandalagsins þann 18. apríl og var þetta í 80. sinn sem ársþing ÍA fer fram. 

Helstu tíðindi af þinginu voru þau að Gyða Björk Bergþórsdóttir var kjörin nýr formaður ÍA og tekur hún við embættinu af Hrönn Ríkharðsdóttur. Gyða Björk hefur setið í stjórn ÍA frá árinu 2022.  

Þingið var ágætlega sótt 70 fulltrúar áttu rétt á setu en 42 mættu, einungis vantaði fulltrúa frá einu félagi, öll önnur sendu fulltrúa þó ekki væri full setið.

Á þinginu voru samþykktar reglur um úthlutun á lottófjármunum – og er það í fyrsta sinn í sögunni sem slíkt er gert hjá ÍA. 

Rekstrartekjur ÍA voru um 102,5 milljónir kr. á árinu 2023 og rekstrargjöld námu um 108,5 milljónum kr. Tap ársins var 4,4 milljónir kr. eftir en ársreikningur bandalagsins er hér

Hrönn fékk gullmerki ÍSÍ og gullmerki UMFÍ á þessu þingi, en þetta er í fyrsta sinn sem UMFÍ veitir gullmerki til einstaklings úr röðum ÍA. Hrönn hefur setið í stjórn ÍA frá árinu 2020 og verið formaður frá árinu 2022. 

Gestir frá UMFÍ Guðmundur Sigurbergsson og ÍSÍ Hildur Karen Aðalsteinsdóttir ávörpuðu þingið og sendu ÍA góðar kveðjur frá sínum stjórnum og starfsfólki.

Fjórir einstaklingar voru sæmdir bandalagsmerki ÍA að þessu sinni og er þeim þakkað það góða starf sem þau hafa innt af hendi í þágu íþróttamála á Akranesi. 

Berglind Helga Jóhannsdóttir – Golfklúbburinn Leynir

Halldór B. Hallgrímsson – Golfklúbburinn Leynir

Oddur Pétur Ottesen – Golfklúbburinn Leynir

Stefán Gísli Örlygsson – Skotfélag Akraness

Samfélagsskjöldur ÍA var afhentur í þriðja sinn, er hann afhentur því fyrirtæki sem stjórn ÍA velur úr þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrkja og styðja við bakið á íþróttafélögum á Akranesi.

Í ár var það Vinnustofa Bjarna Þórs listamanns. Bjarni Þór hefur stutt vel við bakið á þeim íþróttafélögum sem leita til hans með gjafir í margskonar fjáraflanir. Það eru ófáar myndirnar eftir Bjarna Þór sem hanga á veggjum bæjarbúa sem happdrættisvinningar, kvennakvöld, karlakvöld eða hvað það er sem fjáröflunin heitir alltaf er hann til í að gefa af sér.

Nánar á vef ÍA. 

Emilía Halldórsdóttir var endurkjörin varaformaður, hefur hún setið í stjórn ÍA frá 2021 og gengt embætti varaformanns frá 2022. Aðrir í stjórn gáfu öll kost á sér áfram.