Miðbæjarsamtökin Akratorg afhentu nýverið Haraldi Benediktssyni bæjarstjóra Akraneskaupstaðar undirskriftarlistann úr átakinu samtakanna „Fyrsta hjálp og hjartahnoð fyrir miðbæinn”.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum en alls skrifuðu 846 einstaklingar undir áskorunina.
Þar kemur eftirfarandi fram:
„Á eftir áttum við gott spjall við Harald um miðbæinn, möguleg skammtíma- og langtímamarkmið.
Áskorunin snerist um að það hvetja bæjaryfirvöld til að skoða af alvöru hvort gamla Landsbankahúsið gæti orðið ráðhús okkar Akurnesinga.
Við erum þeirrar skoðunar að það myndi hjálpa til við að færa aukið líf í miðbæinn að fá starfsfólk bæjarins og þá sem stýra bænum niður á Akratorg. 846 aðilar skrifuðu undir og má nefna að þar af voru liðlega 60 aðilar sem eiga lögheimili utan við bæjarmörkin.
Við þökkum öllum sem hafa stutt átakið okkar. Við og öll sem búum á Akranesi eigum það sameiginlegt að vilja sjá bæinn okkar eflast og blómstra.“