Golfklúbburinn Leynir vill stækka Garðavöll úr 18 holum í 27 holur

Golfklúbburinn Leynir hefur óskað eftir samningi við Akraneskaupstað um landsvæði til stækkunar á Garðavelli á Akranesi úr 18 holum í 27 holur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá klúbbnum. Stjórn – og framkvæmdastjóri Leynis áttu fund með bæjaryfirvöldum vegna málsins s.l. föstudag.

Bæjarráð hefur falið skipulags- og umhverfisráði að taka við tillögunni og móta næstu skref í stjórnsýslulegri meðferð.

Í tilynningunni kemur fram að tækifæri samfélagsins á Akranesi eru mikil og er Leynir til í að takast á við þetta stóra verkefni með öllum hagsmunaaðilum málsins. Markmiðið er að ná samningi um landnýtinguna í mars árið 2025 en þá fagnar Leynir 60 ára afmæli.

Drögin að stækkun Garðavallar sem kynnt voru á fundinum og sjá má á myndum í meðfylgjandi frétt eru fyrst og fremst ætlað að sýna fram á hvaða landsvæði GL þarf til stækkunar. Leiðarljós verkefnisins er að ná fram markmiðum um aukin gæði, útvíkkun á útivistarsvæðum og bætt aðgengi fyrir alla með öflugu stígakerfi sem tengir saman byggð og fjölnota útivistarsvæði. Drögin eru ekki endanlega hönnun að stækkun eða legu vallarins heldur ætluð til umræðu og ákvarðanatöku um framhaldið.