Myndasyrpa: Fjölmennur hópur nemenda FVA kryddaði menningarlífið á Akranesi

Leiklistarklúbburinn Melló, sem er skipaður nemendum úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, sló heldur betur í gegn með uppsetningunni á Söngleiknum Grease.

Frumsýningin var 12. apríl og var uppselt á alls 11 sýningar – og óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið stórkostlegar. 

Einar Viðarsson var leikstjóri, Flosi Einarsson sá um tónlistarstjórn og danshöfundur var Margrét Hörn Jóhannsdóttir.

Verkefnið var viðamikið og alls tóku um 70 nemendur þátt – sem leikarar, dansarar, söngvarar og í ýmsum öðrum verkefnum sem tengjast slíkri uppsetningu. Nemendur sem voru ekki á sviðinu voru einnig í stórum hlutverkum í uppsetningu á sviðsmynd, förðun, hárgreiðslu, tæknilegum útfærslum, markaðssetningu, miðasölu og samþættingu verkefna þar sem að Sigrún Egla Unnarsdóttir og Katrín María Ómarsdóttir voru þar í fremstu röð.

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem Hrannar Örn Hauksson tók.
Kærar þakkir Hrannar.