Rekstur Akraneskaupstaðar gekk vel á árinu 2023

Ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir árið 2023 – A hluti var samþykktur með 9 atkvæðum gegn engu á fundi bæjarstjórnar Akraness nýverið.

Í bókun meirihluta bæjarstjórnar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, kemur fram að niðurstaðan endurspegli traustan rekstur sveitarfélagsins.

Jákvæð niðurstaða á samstæðureikningi bæjarins var um 319 m.kr sem er um 420 m.kr betri afkoma en 2022 og um 180 m.kr. betri afkoma en upphafleg fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Skatttekjur voru 781 milljónum króna hærri en á fyrra ári, framlög Jöfnunarsjóðs hækkuðu um 527 milljónir króna frá fyrra ári og aðrar tekjur hækka einnig um 306 milljónir króna. 

Þar kemur einnig fram að álagningarprósenta fasteignagjalda var lækkuð á síðasta ári auk þess sem leikskólagjöld og gjaldskrá félagslegrar heimaþjónustu hækkuðu ekkert á milli ára.

Veltufé frá rekstri var jákvætt um 1.177 milljónir króna eða 10,06% af heildartekjum og er það 274 milljónum króna betri niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Handbært fé í árslok var 372 milljónir króna en lækkar það um 433 milljónir króna á árinu vegna umtalsverðra fjárfestinga og niðurgreiðslu skulda og skuldbindinga.

Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir fjármagnsliði og óreglulega liði, er neikvæð um 170,4 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 298,8 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 475,2 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 190,7 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Lykiltölur A-hluta:

Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga:

Rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára í m.kr. er 927,6 en nam 631,9 árið 2022.

Skuldaviðmið er 53% en var 41% árið 2022.

EBITDA framlegð er 1,88% en var neikvæð um 1,46% árið 2022.

Veltufé frá rekstri er 12,03% en var 9,36% árið 2022.

Skuldahlutfall (skuldir/rekstrartekjum) er 95% en var 77% árið 2022.

Eiginfjárhlutfall er 51% en var 58% árið 2022.

Veltufjárhlutfall er 0,60 en var 1,00 árið 2022.

Nánar á vef Akraneskaupstaðar: