Hverju svarar bæjarstjórn Akraness?

Aðsend grein um málefni Jaðarsbakka: 

Augljóst er af skrifum um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar og framkvæmdir á Jaðarsbökkum að sitt sýnist hverjum.  

Undirritaðir hafa um áratugaskeið unnið að íþróttamálum á Akranesi af þeirri hugsjón að vel sé búið að íþróttum á Akranesi og að Jaðarsbakkasvæðið og Langisandur verði áfram aðgengilegt fyrir alla – unga sem og þá sem eldri eru. 

Góðlátlega er því bent á – án tillits til aldurs – að það er sameiginlegt verkefni að tryggja aðstöðu íþrótta- og afreksfólks. 

Þar undir fellur m.a. aðstaða knattspyrnufélagsins og sundfélagsins.   Bygging hótels er þarft verkefni – en utan verkefnis þeirra, sem leggja íþróttahreyfingunni lið með framlagi sínu.

Þetta má glöggt sjá á grein sem undirritaðir birtu í Skessuhorninu og á skagafrettir.is fyrir skömmu. Þar er m.a. lagst gegn óþörfum, kostnaðarsömum og vanhugsuðum snúningi Akranesvallar, sem er samhljóða samþykkt stjórnar Knattspyrnufélags ÍA. Þar er einnig lagst gegn skerðingu íþróttasvæðisins á Jaðarsbökkum. 

Einn er sá aðili, sem lítt hefur haft sig í frammi um stöðu mála og áætlanir, en það er bæjarstjórn Akraness.  Til þess að umræðan byggi á skikkanlegum forsendum er kallað eftir skýrum svörum bæjarstjórnarinnar við eftirfarandi spurningum og óskum um upplýsingar:

  1. Hver er staðan á vinnu samkvæmt viljayfirlýsingu frá 7. mars 2023?
  2. Hvers vegna er ekki fallist á afstöðu stjórnar Knattspyrnufélags ÍA um að endurbyggja Akranesvöll í sömu legu, en nær grasbrekku og Akraneshöll?
  3. Liggja fyrir málsettar teikningar af Akranesvelli miðað við að honum verði snúið um 90°?
  4. Akraneskaupstaður áætlar að framkvæmdir við nýjan aðalvöll, völl austan Akraneshallar, áhorfendastúku og aðra aðstöðu knattspyrnufélagsins verði um 2,0 milljarðar króna.  Óskað er eftir upplýsingum um hvernig þessi áætlaði kostnaður sundurliðast og á hvaða tíma framkvæmdir eru fyrirhugaðar.
  5. Liggur fyrir áætlun um mismun kostnaðar við endurbyggingu vallarins í óbreyttri legu og kostnaði við snúning vallarins?
  6. Ef Akranesvelli verður snúið, verður þá gert ráð fyrir landauka við suðurenda vallarins með því að færa grjótvörn út á Langasand?
  7. Hvernig verður umferðartengingum að hóteli og íþróttasvæðið hagað?
  8. Verður byggð innisundlaug á Jaðarsbökkum? Ef svo er hvað er áætlað að sú framkvæmd kosti og hvenær má gera ráð fyrir þeim framkvæmdum?
  9. Þegar rætt er um lýðheilsumiðstöð er spurt hvort slík miðstöð eigi að vera í hótelinu eða verður sú miðstöð sjálfstætt verkefni á vegum bæjarins?
  10. Upplýsingar liggja fyrir um að gert sé ráð fyrir 60 bílastæðum við Innnesveg. Telur bæjarstjórn að sá fjöldi bílastæða uppfylli kröfur fyrir íþróttasvæðið í heild?
  11. Hverjar eru áætlaðar heildar byggingaleyfis- og lóðatekjur Akraneskaupstaðar af hóteli og íbúðum á Sementsreit, sem tengjast verkefninu?
  12. Hver er áætlaður heildarkostnaður framkvæmda sem bæjarsjóði er ætlað að standa undir?
  13. Er ráðgert að fara í viðhald á ytra byrði Akraneshallar og íþróttahúss norðan Jaðarsbakkalaugar?
  14. Þar sem ætla má að skipulagshugmyndir bæjarstjórnar muni hafa veruleg áhrif á  ásýnd, umhverfi og fjárhagslegar skuldbindingar er spurt hvort málið verði tekið til afgreiðslu að undangenginni bindandi íbúakosningu?

Mikilvægt er að ofangreindar upplýsingar verði birtar þannig að bæjarbúar átti sig á hvernig bæjarstjórn hyggst vinna að því verkefni, sem augljóst er að skiptar skoðanir eru um.

Andrés Ólafsson, Benedikt Valtýsson, Davíð Kristjánsson, Einar Guðleifsson, Guðjón Þórðarson, Gunnar Sigurðsson, Gunnlaugur Jónsson, Hörður Helgason, Jón Gunnlaugsson, Jón Runólfsson, Karl Þórðarson, Kristján Sveinsson, Ólafur Þórðarson, Pétur Óðinsson, Sigurður Halldórsson, Steinn Mar Helgason, Sturlaugur Haraldsson, Þröstur Stefánsson.