Carbfix, Elkem á Íslandi og Þróunarfélag Grundartanga undirrituðu nýverið samning sem miðar að því að Carbfix bindi CO2 frá kísilmálmveri Elkem á Grundartanga. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Meginmarkmið samstarfsins er að fanga koldíoxíð úr útblæstri Elkem og binda til frambúðar með því að nýta sannaða og örugga aðferð Carbfix til að umbreyta gasinu í stein djúpt neðanjarðar á innan við tveimur árum.
Fyrsti áfangi felur í sér að bora rannsóknarholu á næstu vikum og mánuðum til að meta möguleika berglaga í nágrenni Elkem til steindabindingar á CO2. Verkefnið miðar að því að þróast frá rannsóknarstigi yfir í fulla föngun og bindingu á allt að 450.000 tonnum árlega af koldíoxíði frá Elkem á Íslandi sem myndi hafa umtalsverð áhrif á skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
Losun Íslands skiptist á eftirfarandi hátt samkvæmt Umhverfisstofnun:
- Samfélagslosun (ESR), tæplega 2,8 milljónir tonna
- Landnotkun, 7,8 milljónir tonna
- Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) 1,9 milljónir tonna
Binding frá Elkem á Íslandi myndi hafa veruleg áhrif á skuldbindingar Íslands innan ETS og minnka losun Íslands um tæpan fjórðung.
Carbfix hefur þróað aðferð til að binda CO2 í bergi neðanjarðar á innan við tveimur árum. Fyrirtækið hefur beitt tækninni allt frá árinu 2012. Aðferðin flýtir náttúrulegum ferlum í hvarfgjörnu basalti og veitir þannig örugga og varanlega bindingu með minni tilkostnaði en margar aðrar lausnir.
„Samstarf Carbfix og Elkem er hafið og með því byrjar nýr kafli í sögu stóriðjunnar á Íslandi og kísilmálmframleiðslu í heiminum þegar horft er til losunar gróðurhúsalofttegunda. Við gerum ráð fyrir að fleiri fyrirtæki og geirar fylgi í kjölfarið svo við getum spornað við þeim alvarlegu breytingum sem þegar eru hafnar á loftslaginu,“ segir Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.
„Í yfir hundrað ár hefur Elkem samsteypan verið frumkvöðull í tækniþróun í kísiliðnaði og haft frumkvæði að þróun lausna á sviði umhverfismála. Elkem Ísland hefur sett það markmið að starfsemin verði með öllu kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2050. Samstarf Elkem og Carbfix er mikilvægt skref á átt að því markmiði, “segir Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem Ísland.
„Þróunarfélag Grundartanga hefur með áherslum sínum stuðlað að sátt um Grundartangasvæðið og dregið fram möguleika þess til að vera í forystu hvað varðar sjálfbærni og hringrásarhugsun. Því fögnum við sérstaklega þessu framtaki í dag,“ segir Ólafur Adolfsson stjórnarformaður Þróunarfélags Grundartanga.
Um Carbfix:
Carbfix er brautryðjandi á heimsvísu í bindingu CO2 í bergi neðanjarðar. Fyrirtækið hefur síðan 2012 bundið tæplega 100 þúsund tonn af CO2 á Íslandi með eigin tækni sem er örugg, sannreynd, varanleg og hagkvæm. Stefnt er að frekari innleiðingu hennar bæði á Íslandi og erlendis. Nánari upplýsingar um fyrirtækið, tækni þess og verkefni má finna á www.carbfix.com
Um Elkem:
Elkem á Íslandi er framleiðandi af hágæða kísilmálm sem er lykilhráefni í framleiðslu á rafmagnsstáli. Fyrirtækið er hluti af sterkri alþjóðlegri heild, Elkem ASA, sem er einn af helstu framleiðendum heims á kísilafurðum. Við viljum tryggja trausta framtíð fyrirtækisins með stöðugum vexti og nýjungum á sviði þjónustu og vöruframboðs fyrir viðskiptavini okkar. Nánari upplýsingar má finna á www.elkem.com
Um Þróunarfélagið á Grundartanga:
Tilgangur Þróunarfélags Grundartanga er að vinna að framfaramálum á athafna-, iðnaðar- og hafnarsvæðinu við Grundartanga í Hvalfjarðarsveit. Þróunarfélagið hefur með samstarfi sveitarfélaga, Faxaflóahafna og fyrirtækjanna á Grundartanga skapað grundvöll til fjölgunar atvinnutækifæra, aukinnar sjálfbærni og hringrásarhugsunar. Áhersla er lögð á kynningu á atvinnusvæðinu á Grundartanga fyrir grænan iðnað og laða þannig að fjárfesta og ný græn atvinnutækifæri.