„Stöðug ógn vegna mögulegs leka og bleytu í kjallara,“ segir í skýrslu stjórnar Golfklúbbsins Leynis fyrir árið 2024 þar sem greint frá þeim vandamálum sem hafa ítrekað komið upp vegna aðkomuvatns í kjallara í frístundamiðstöðinni Garðavöllum – sem tekin var í notkun í maí 2019.
Þar kemur einnig fram að það sé mat klúbbsins að Akraneskaupstaður hafi ekki farið í nauðsynlegar framkvæmdir við að verja frístundamiðstöð Garðavalla aðkomuvatni.
Í kjallara Garðavalla er æfingaaðstaða sem hefur mest verið notuð yfir vetrarmánuðina – en vatn hefur lekið inn í kjallarann í nokkur skipti allt frá árinu 2020.
Dælur sem sjá um að koma aðkomuvatninu í réttan farveg hafa stíflast með reglulegu millibili og þá skapast ástand þar sem að aðkomuvatn á greiða leið í kjallarann. Slíkt hefur gerst í nokkur skipti frá árinu 2020.
Í skýrslunni kemur eftirfarandi fram:
Sú hætta er því ávallt yfirvofandi með tilheyrandi óþægindum fyrir vetrarstarf klúbbsins og starfsmenn hans. Síðustu fregnir eru þó að niðurstaða er komin í því hvernig bærinn hyggst verja húsið en hvenær framkvæmdir hefjast liggja ekki fyrir. Þessu verkefni til viðbótar eru nokkur önnur atriði sem snúa að samstarfi Akraneskaupstaðar og Leynis sem eru til þess fallinn að valda okkur í stjórn GL áhyggjum.
Þar ber helst að nefna æfingaaðstaða GL yfir vetrarmánuði er fyrir löngu sprungin og ekki á nokkurn hátt ásættanleg. Þar bætist við stöðug ógn vegna mögulegs leka og bleytu í kjallara. Íþróttastjóri GL er á tímum með 8-10 krakka á æfingu í plássi sem telur einhverja 50-60 fm, með tilheyrandi slysahættu og óþægindum. Þegar horft er til þeirra fjölgunar sem orðið hefur hjá GL undanfarin ár, er ljóst að aðstöðuleysið þarfnast úrlausnar sem tæplega verður hrundið af stað án aðkomu sveitarfélagsins.
Stjórn Leynis hefur s.l. ár ítrekað bent bæjaryfirvöldum sem og Íþróttabandalagi Akraness á að grípa þurfi til aðgerða í inniaðstöðumálum klúbbsins en það lítur út fyrir að enn einn veturinn verði félagsmenn Leynis að una við núverandi aðstöðu með þeirri ógn sem vofir yfir og ónothæfu gervigrasi til æfinga,“ segir m.a. í skýrslunni sem er hér fyrir neðan í heild sinni.