Nýverið var greint frá því að framleiða á sjónvarpsþætti sem byggð verður á glæpasögunni Marrið í stiganum. Glæpasöguna skrifaði Skagakonan Eva Björg Ægisdóttir og vakti fyrsta skáldsaga hennar mikla athygli þegar hún kom út árið 2018.
„Þetta er mjög spennandi. Glassriver er flott framleiðslufyrirtæki sem hefur komið að gerð ýmissa flottra þátta og kvikmynda undanfarið. Þau sem koma að verkefninu ætla að fara í þetta af fullum krafti og ég treysti því að bókin sé í góðum höndum,“ segir Eva Björg við Skagafréttir.
Fyrst sjónvarpsþáttaröðin verður eins og áður segir byggð á sögunni Marrið í stiganum sem er fyrsta bókin eftir Evu. Rauði þráðurinn í þeirri sögu er að ung kona finnst myrt í fjörunni við Akranes. Hin látna reynist hafa búið sem barn í bænum en flutti skyndilega burt ásamt móður sinni. Lögreglukonan Elma, sem er nýflutt á Skagann, rannsakar málið ásamt samstarfsmönnum sínum. Upp á yfirborðið koma ýmis skuggaleg mál úr fortíðinni en Elma þarf líka að takast á við atburði í eigin lífi sem hröktu hana aftur heim á æskuslóðirnar.
Eva Björg segir ennfremur að Akranes verði tökustaður í þáttaröðinni. „Akranes verður að sjálfsögðu tökustaður, þó ég viti nú ekki nákvæmlega hvernig allt gengur fyrir sig varðandi innitökurnar en ég tel að það sé alveg nauðsynlegt að ákveðnar senur verði teknar upp á Skaganum, enda staðsetningin mjög mikilvæg fyrir söguna,“ segir Eva Björg.
Hún vonast til þess að verkefnið gangi vel og að mögulega verði til fleiri sjónvarpsþáttaraðir gerðar í framhaldinu. Karen Björg Eyfjörð Þorsteinsdóttir skrifar sjónvarpshandritið en hún hefur verið einn afkastamesti handritshöfundur síðari ára hér á landi
„Ef allt gengur upp gætu mögulega orðið fleiri þáttaraðir, en þá alltaf ein bók eða eitt mál í hverri þáttaröð. Ég er að lesa handritið af fyrsta þættinum og líst vel á,“ segir Eva Björg við Skagafréttir.