Notendaráð um málefni fatlaðs fólks á Akranesi er ósátt við þá stöðu sem komin er upp vegna húsnæðismála Fjöliðjunnar og væntanlegrar Samfélagsmiðstöðvar. Akraneskaupstaður hafði áætlað að útboðsgögn um byggingu á nýrri Samfélagsmiðstöð yrðu birt haustið 2024 en ljóst er að framkvæmdir hefjast í fyrsta lagi árið 2028.

Fyrst var greint frá áformunum í desember 2021. Sjá þessa frétt: 

Fjöliðjan, HVER, frístundastarf og fleiri aðilar fá nýtt heimili í „Samfélagsmiðstöð“

Í fundargerð ráðsins kemur fram að notendaráði er orða vant vegna stöðu málsins – en sex ár eru liðin frá því að eldur kom upp í húsnæði fjöliðjunnar við Dalbraut – og frá þeim tíma hefur starfssemin verið í bráðabirgðahúsnæði. 

Ný samfélagsmiðstöð við Dalbraut fær um 1,2 milljarða kr. í áætlun ársins 2028. 

Samfélagsmiðstöðin er framtíðarhúsnæði fyrir Fjöliðjuna, Hver og Þorpið og er gert ráð fyrir að bjóða út verkefnið árið 2025. Gert er ráð fyrir 1,2 milljörðum kr. í verkefnið í fjárhagsáætlun á árinu 2028. Akraneskaupstaður stefnir á að kaupa neðstu hæðina í þeirri byggingu sem mun rísa á byggingareitnum við Dalbrautina. 

Fundargerð ráðsins er í heild sinni hér fyrir neðan. 

Umræða um húsnæðismál Fjöliðju / Samfélagsmiðstöðvar. Kristinn Hallur  Sveinsson formaður velferðar- og mannréttindaráðs, Einar Brandsson og Aníta Eir Einarsdóttir ráðsmenn í velferðar- og mannréttindaráði mæta til umræðna við  notendaráð um málefnið. 

Fram kom í máli ráðsmanna í velferðar- og mannréttindaráði á fundinum að þrátt  fyrir fullyrðingar Kristins Halls Sveinssonar formanns velferðar- og  mannréttindaráðs og Guðmundar Ingþórs Guðjónssonar formanns skipulags- og  umhverfisráðs á fundi notendaráðs þann 7.október 2024 um breiða samstöðu í  bæjarstjórn um útboð á byggingu Samfélagsmiðstöðvar á haustmánuðum 2024,  enda engin fjárútlát vegna verkefnisins fyrstu misseri framkvæmdanna, væri nú  engu hægt að svara hvort og þá hvenær útboð byggingarinnar færi fram. Sá  skyndilegi viðsnúningur mætti rekja til bágrar fjárhagsstöðu bæjarfélagsins og  framhald byggingarinnar réðist nú af mögulegri lóðasölu í bæjarfélaginu.  

Notendaráði er orða vant vegna stöðu málsins. Nú tæpum sex árum eftir að hús  Fjöliðjunnar skemmdist mikið í eldi virðist farsæl lausn málsins fjarlægjast með  hverjum mánuðinum sem líður. Þrátt fyrir fögur fyrlrheit og loforð bæjarfulltrúa  allra flokka æ síðan er nú svo komið að uppbygging þessa húsnæðis sem fellur  undir lögbundnið hlutverks sveitarfélagsins er háð duttlungum í lóðasölu frá ári til  árs. Það liggur í augum uppi að sú staða er ekki sæmandi nokkru samfélagi. 

Í ljósi reynslunnar fer notendaráð ekki fram á frekari loforð frá bæjarfulltrúum en  treystir því að hinn almenni bæjarbúi leggi sín lóð á vogarskál þess að Fjöliðjan  fái að nýju sérhannað hús undir starfsemi sína. Því verður vart trúað að  bæjarbúar sætti sig við að þegar þrengir að fjárhag skuli það fyrst bitna á  lögbundnum verkefnum er snúa að þeim sem síst geta borið hönd fyrir höfuð sér.