Grassláttur fyrir eldri borgara og öryrkja hefur verið til umræðu hjá stjórnsýslunni á Akranesi.
Lagt hefur verið til að vinnuskóli Akraness hætti að bjóða upp á grasslátt fyrir eldri borgara – og öryrkja.

Skipulags- og umhverfisráð hefur samþykkt að fá álit velferðar- og mannréttindaráðs og öldungaráðs á því að vinnuskólinn hætti að bjóða upp á þessa þjónustu.
Ýmsar ástæður eru nefndar í rökstuðningi um að hætta þessari þjónustu.
Má þar nefna samkeppnisrök, en vinnuskólinn hefur ekki heimild til að vera í samkeppni við einkaaðila eða verktaka.
Í fundargerð notendaráðs um málefni fatlaðs fólks á Akranesi sem fram fór 25. febrúar s.l. kemur eftirfarandi fram:
Vinnuskólinn hefur mörg undanfarin ár séð um að bjóða ellilífeyrisþegum og öryrkjum garðslátt gegn vægu gjaldi sem er 75% niðurgreitt af sveitarfélaginu. Einn hópur, sem samanstendur af fjórum unglingum og einum flokkstjóra, hefur séð um þessa þjónustu.
Innheimt þóknun vegna þjónustunnar mætir aðeins litlum hluta af raunkostnaði. Sá þáttur hefur þó ekki vegið þyngst heldur sá útgangspunktur að þjónusta þá sem ekki geta séð um að slá sína garða sjálfir.
Síðustu ár hefur hins vegar komið til tals að Vinnuskólinn hætti þessari þjónustu.
Ástæðurnar eru nokkrar:
– Vinnuskólinn á ekki og hefur í raun ekki heimildir til að vera í slíkri starfsemi í samkeppni við verktaka eða aðra einkaaðila sem hafa áhuga á að bjóða þessa þjónustu.
– Margir eldri borgarar ( 67 ), sem kjósa að búa í einbýli með garði, eru fullfrískir og hafa getu til að slá sína garða sjálfir.
– Vinnuskólinn starfar yfirleitt frá 10 júní og fram í miðjan ágúst, en fyrir þann tíma þarf að slá og einnig eftir að Vinnuskóla líkur. Fyrsti sláttur er því oft mjög tímafrekur ef ekki er búið slá utan þess tíma sem Vinnuskólinn starfar. Þannig er örðugt að bjóða upp á þjónustu aðeins hluta úr sumri, þjónustu sem þarf að sinna allt sumarið.
– Vinnuskólinn hefur verið að slá um 70 garða, 4 sinnum á sumrinu.
Síðustu ár hefur enginn verktaki sýnt áhuga á því að bjóða upp á þessa þjónustu, en í fyrra sumar voru þó einhverjir unglingar sem tóku sig til og buðu upp á slíkan slátt fyrir einkaaðila.
Útgangspunkturinn er því sá að opna á slíkt tækifæri fyrir fyrir duglega og framtaksama einstaklinga í sveitarfélaginu.