VÍS mun opna þjónustuskrifstofu á Akranesi í sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

Skrifstofan verður að Dalbraut 1, í sama húsnæði og Íslandsbanki en stutt er síðan tilkynnt var um samstarf milli VÍS og Íslandsbanka.

Opnunin er liður í stefnu VÍS um að efla enn frekar þjónustu sína á landsbyggðinni en á síðasta ári bættist við ný skrifstofa í Reykjanesbæ.

„Þrátt fyrir að hægt sé að gera mjög margt á netinu tengt tryggingum þá vill fólk hafa valmöguleikann á að tala við aðra manneskju, sérstaklega í flóknari málum. Þá vilja viðskiptavinir okkar geta talað við einhvern sem getur leiðbeint þeim og tekið raunverulegt tillit til aðstæðna þeirra. Í slíkum aðstæðum skiptir sköpum að geta boðið upp á framúrskarandi þjónustu í heimabyggð. Við erum full tilhlökkunar að mæta aftur á Skagann”, segir Guðný Helga Herbertsdóttir forstjóri VÍS.

Guðný Helga Herbertsdóttir forstjóri VÍS

Ingibjörg Ólafsdóttir, betur þekkt sem Inga Óla, mun veita skrifstofunni forystu en hún hefur nýlega tekið við starfi sem þjónustustjóri VÍS á Vesturlandi. Inga býr yfir mikilli reynslu en hún hefur starfað hjá VÍS í þrjá áratugi og mun hún ásamt samstarfsfólki sínu sjá til þess að viðskiptavinir á Vesturlandi hljóti framúrskarandi þjónustu.

„Ég er stolt af því að leiða þjónustuna á Vesturlandi frá nýrri skrifstofu okkar í mínum heimabæ. Við höfum verið með tímabundnar opnanir síðustu mánuði sem viðskiptavinir og aðrir íbúar tóku mjög vel í þannig að það eru miklar gleðifregnir að hafa fundið varanlegt húsnæði fyrir starfsemina okkar á Akranesi,“ segir Inga Óla, þjónustustjóri VÍS á Vesturlandi.

Starfsmaður VÍS mun sitja í útibúi Íslandsbanka frá byrjun maí en skrifstofa VÍS mun opna á sumarmánuðum. 

Ingibjörg Ólafsdóttir, þjónustustjóri VÍS á Vesturlandi
  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?