Golfklúbburinn Leynir tilkynnti í dag að tímabundinn lausn hafi verið fundinn vegna inniaðstöðumálum klúbbsins. 

Inniaðstöðunni í kjallara Garðavalla, frístundamiðstöðvarinna, sem opnuð var þann 11. maí 2019 eða fyrir 6 1/2 ári síðan, verður lokað vegna ítrekaðra vandamála vegna vatnsleka. Frístundamiðstöðin var vígð fyrir rétt tæplega 77 mánuðum. 

 

Tilkynning Leynis er hér í heild sinni: 

„Það er með mikilli gleði að stjórn Leynis getur tilkynnt ykkur að komin er tímabundin lausn á inniaðstöðumálum félagsins. Erindi Golfklúbbsins Leynis var tekið fyrir að nýju á fundi bæjarráðs, fimmtudaginn 11. september og samþykkt.

Frá árinu 2020 hefur margoft flætt í kjallarann, mis mikið þó, sem leitt hefur til þess að loka þurfi æfingaaðstöðu og kostnaður fallið bæði á Akraneskaupstað og Golfklúbbinn Leyni.

Þegar kjallarinn var tekinn í notkun undir æfingaaðstöðu var fjöldi barna og ungmenna innan við 20 og þjálfari í 60% starfi. Í dag eru yfir 60 börn og ungmenni á æfingum yfir vetrartímann og Íþróttastjóri í fullu starfi. Þá hefur félagatal Golfklúbbsins tæplega þrefaldast frá 2018 sem gefur skýra mynd á hversu takmörkuð núverandi aðstaða er í kjallara Garðavalla.

Golfklúbburinn Leynir hefur s.l. ár boðið öllum grunnskólabörnum upp á gjaldfrjálsar sumaræfingar, verkefni sem klúbburinn er afar stoltur af. 

Æfingarnar hafa verið mjög vel sóttar því yfir 100 börn á Akranesi hafa skráð sig ár hvert og hafa þau skilað sér vel inn í vetrarstarfið. Verkefnið er kostnaðarsamt en það er vilji félagsins að fjárfesta og efla lýðheilsu ungmenna og bæta það góða barna- og unglinga starf sem klúbburinn er að uppskera nú ríkulega.

Æfinga- og árgjöldum barna og ungmenna er stillt verulega í hóf og er það yfirlýst stefna stjórnar Leynis að ekki standi til að hækka þau svo um muni til að standa straum af barna- og ungmenna starfi. Þeim kostnaði er mætt með öðrum hætti.

Keppikefli stjórnar er að ekki verði þjónusturof í barna-, ungmenna og afreksstarfi klúbbsins. Að því sögðu er tíminn knappur og mun stjórn þurfa að leita til félagsmanna eftir hjálp þegar endanleg lending verður í húsnæðismálum. Það er von stjórnar að klúbburinn geti lyft grettistaki saman og komið upp myndarlegri aðstöðu undir vetrarstarfið okkar.

Framtíð klúbbsins er björt og nú er að hamra járnið á meðan það er heitt og leggja drög að framtíðarlausn í inniaðstöðumálum sem mætir þörfum ört stækkandi starfsemi.

Kær kveðja, Hróðmar Halldórsson formaður Leynis.

  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?