
Líf Lárusdóttir, formaður bæjarráðs skrifaði pistil í gær sem hún birti á samfélagsmiðlum. Þar fór bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins yfir þá ákvörðun bæjarins að taka upp rafrænt klippikort fyrir íbúa til þess að losa heimilisúrgang sem er gjaldskyldur.
Í pistlinum kemur fram að mikil óánægja hafi komið fram hjá íbúum með núverandi fyrirkomulag – og rafræna klippikortið verður hýst í nýju smáforriti (APP) sem er í vinnslu hjá Akraneskaupstað.

Pistill Lífar er hér fyrir neðan:
Akranes APP💙& rafræn klippikort!
Eins og fram hefur komið í fundargerðum og birtist á vef Skagafrétta fyrr í dag þá er nú í vinnslu smáforrit (APP) fyrir Akraneskaupstað sem meðal annars mun hýsa rafrænt klippikort í Gámu.
Án frekari kynningar á þessum stigum um sjálft appið þá langar mig að tala um klippikortin og hvers vegna þau koma til….. aftur.
Það er nú einu sinni þannig að í okkar störfum sem bæjarfulltrúar erum við að fást við alls konar og taka alls konar ákvarðanir. Fjárhags og fjárfestingaáætlunin í fyrra var engin undantekning á því en þar var kynnt ákveðin breyting á gjaldskrá á gámasvæði og klippikortin tekin úr umferð.
Ákveðin upphæð var við þetta tekin út úr sorphirðugjaldinu eftir hugmyndafræðinni „Þau borga sem henda“.
Við lögðum af stað og mjög fljótlega kom í ljós að breytingin olli mikilli óánægju á meðal bæjarbúa. En þá voru góð ráð dýr því þarna vorum við búin að gera breytingu og heilt ár undir. Óánægjan jókst og við vorum reglulega að kalla eftir gögnum um hversu mikið íbúar væru að greiða fyrir sinn úrgang í Gámu.
Tölfræðin sagði okkur svo sem allan tímann að stór hluti var að greiða upphæð lægri en 3600 kr. Sjá dæmi um tölfræði frá svæðinu eftir 4 mánuði af nýja fyrirkomulaginu:
45% íbúa greiða ekkert
74% greiða 3.600 krónur eða minna
90% greiða undir 7.200 krónum
Það er hins vegar samnefnari í öllu því sem fólk sem leitaði til mín sagði: „Það er svo ótrúlega vont að vita einhvern veginn ekki hvað ég er að fara borga mikið upp í Gámu, hvort það er 2000 kr eða 10.000 kr“.
Ég heyrði og heyri sögur af því að fólk sé að geyma heima hjá sér rusl eða fara með annað til að henda.
Við teljum okkur með rafræna klippikortinu ná að vinna áfram eftir hugmyndafræðinni um að þau borgi sem hendi vegna þess að ákveðin klipp verða innifalin í sorpgjaldi en ef fólk þarf af einhverjum ástæðum að henda meiru og klippin duga ekki, þá verður hægt að kaupa inneign á klippikortið.
Við sem vinnum fyrir íbúa þurfum að geta hlustað og verið tilbúin að fara til baka ef þannig viðrar og þessa mánuði höfum við nýtt til að fara yfir einmitt þetta. Hvernig gerum við þetta svo það sé fyrirsjáanleiki, sanngirni og ekki letjandi fyrir íbúa að mæta með sinn úrgang, flokka og henda.
Það er margt fleira spennandi sem tengist appinu sem ég ætla að bíða með að segja betur frá en þetta er breytingin sem framundan er og ég hlakka til að taka áfram þátt í verkefninu með öflugu fólki.









